Categories
Fréttir

Dísilvélar keyrðar vegna skorts á rafmagni

Deila grein

28/01/2016

Dísilvélar keyrðar vegna skorts á rafmagni

Sigurður Páll Jónsson 005„Hæstv. forseti. Íslensk náttúra býr yfir mikilli fegurð, um það eru allir sammála, og er gríðarlega auðlindarík, bæði til sjávar og sveita. Af auðlindunum hefur þjóðin lifað frá því öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar ráku á land og jafnvel eitthvað fyrr. Ein er sú auðlind sem við Íslendingar höfum verið bæði þakklátir og stoltir af, en það eru fallvötnin sem með krafti sínum framleiða rafmagn þegar þau streyma í gegnum rafala sem komið hefur verið fyrir í byggingum virkjana vítt og breitt um landið á síðustu rúmum 100 árum. Virkjanamál okkar eru mikið mál sem flestir hafa skoðun á og ekki síst sú hlið sem kölluð er sjónmengun. Önnur mengun er minni vegna þess hreinleika sem í kröftunum er og framleiða rafmagnið, þ.e. vatninu. Hveravirkjanir eru nokkrar, vindorkuvirkjanir einhverjar, en sjávarfalla- og ölduvirkjanir að mestu enn á þróunarstigi. Eitthvað er um sólarrafhlöðuvirkjun, en þó aðallega til heimabrúks.
Þegar kemur að sjónmengun þykja loftlínur og þau stauravirki sem halda línunum uppi ekki mikil prýði og allra síst ef minnst er á að leggja þær yfir hálendið. Jarðstrengir er kostur sem byrjað er að nota í auknum mæli í háspennulögnum, en er þó dýrari í framkvæmd, en á móti kemur minni viðhaldskostnaður auk þess sem ísing og foktjón heyra sögunni til.
Þjónustuöryggi er sagt verulega ábótavant sakir flutningsgetu raflína annars vegar og mikils álags og aldurs lína hins vegar. Heyrt hef ég að á mestu annatímum á loðnuveiðum og -vinnslu séu vinnslur keyrðar á dísilvélum á sumum stöðum vegna skorts á rafmagni. Er þetta ekki eitthvað sem gæti verið í lagi ef rétt væri á málum haldið? Mitt álit er að umræða um virkjanamál sé ekki á góðum stað á Alþingi og því Alþingi ekki til sóma.“
Sigurður Páll Jónsson — í störfum þingsins 26. janúar 2016.