Categories
Fréttir

Skortur á efnislegum gæðum

Deila grein

28/01/2016

Skortur á efnislegum gæðum

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Á vef Hagstofunnar má finna skýrslu sem gefin var út í júlí 2015 um laun, tekjur og vinnumarkaðinn. Í skýrslunni er verið að mæla lífskjör fólks og bera saman hópa út frá skorti á efnislegum gæðum. UNICEF-skýrslan sem nokkrir þingmenn hafa rætt um nú þegar er að hluta til byggð á upplýsingum úr þessari skýrslu um félagsvísa. Í skýrslu Hagstofunnar kemur meðal annars fram að hlutfall fólks sem skorti efnisleg gæði á Íslandi lækkaði á milli áranna 2013 og 2014. Árið 2013 var þetta hlutfall á Íslandi það fimmta lægsta í Evrópu. Þegar skortur er greindur eftir atvinnustöðu skera öryrkjar sig úr, en fjórðung þeirra skorti efnisleg gæði. Hlutfallið er mun lægra meðal atvinnulausra, 12,5%, sem er samt líka of hátt. Skortur á efnislegum gæðum er tíðari meðal einstæðra foreldra og barna þeirra en á meðal annarra heimilisgerða. Þá var hlutfallið nokkuð hátt á meðal einstaklinga undir 65 ára sem búa einir, eða 15,1%.
Það sem kemur verulega á óvart í skýrslunni er staða eldri borgara, en þeir eru sá hópur sem skortir síst efnisleg gæði. Þar var hlutfallið aðeins 2,3%. Sá hópur kemur meira að segja betur út en fólk í fullri vinnu, en þar mælist skorturinn örlítið meiri, eða 3,2%. Með þessu er ég ekki að segja að allir eldri borgarar hafi það stórfínt, alls ekki. Enginn ætti að líða skort á Íslandi. Og á bak við hverja einustu prósentu er einstaklingur.
Virðulegi forseti. Umræðan um almannatryggingar hefur verið hávær að undanförnu. Við erum sammála um að við eigum að gæta okkar minnsta bróður. Þess vegna er mikilvægt að við byggjum á öruggum upplýsingum og beinum aðstoðinni til þeirra sem þurfa mest á henni að halda.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir — í störfum þingsins 26. janúar 2016.