Categories
Fréttir

„Ég beini því til biskups, þeirri bæn og ósk“

Deila grein

21/10/2015

„Ég beini því til biskups, þeirri bæn og ósk“

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég hef verið í Þjóðkirkjunni mestallt mitt líf og tel að kirkjan sé einn af hornsteinum þjóðfélagsins sem við byggjum. Þess vegna hefur það valdið mér mikilli hryggð að heyra undanfarnar vikur að það sé hópur fólks sem kirkjunnar þjónar taka ekki á móti jafn opnum örmum og öðrum og beita fyrir sig svokölluðu samviskufrelsi. Þarna er ég að ræða um samkynhneigð pör sem nokkrir prestar Þjóðkirkjunnar hafa tekið sér leyfi til þess að neita að gefa saman í heilagt hjónaband.
Kirkjunnar þjónar eru opinberir embættismenn
Kirkjunnar þjónar eru ekki eingöngu í þjónustu kirkjunnar, þeir eru opinberir embættismenn. Það er gagnstætt bæði stjórnarskrá og stjórnsýslulögum að mismuna fólki í stjórnvaldsathöfnum. Ég tel ástæðu til að geta þess hér að þessu voru gerð ágæt skil um daginn í grein eftir ágætan varaþingmann Vinstri grænna, Andrés Inga Jónsson, þar sem hann fór yfir þetta mál.
Finni sér einfaldlega annan starfsvettvang
Nú virðist það vera þannig, samkvæmt einhverjum skoðanakönnunum, að hér sé um örfáa presta að ræða sem treysta sér ekki til þess að gefa saman samkynhneigð pör. Ég beini því til biskups, þeirri bæn og ósk, að ef það er svo að þessir ágætu prestar treysta sér ekki til þess að uppfylla þessi skilyrði þá finni þeir sér einfaldlega annan starfsvettvang. Ég held að það væri þeim líka hollt að lesa 40. vers úr 25. kafla Matteusarguðspjalls, með leyfi forseta:
„Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.““
Þorsteinn Sæmundsson – í störfum þingsins 20. október 2015.