Categories
Fréttir

Verðtryggingarmálin – Næstu skref verði tímasett á allra næstu dögum

Deila grein

21/10/2015

Verðtryggingarmálin – Næstu skref verði tímasett á allra næstu dögum

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja ræðu mína á að lesa stuttan texta upp úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, en þar segir, með leyfi forseta:
„Unnið verður að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál, sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja, fái eins hraða meðferð og mögulegt er. Óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum verður að linna.“
Flýtimeðferð dómsmála
Á sumarþingi 2013 var samþykkt þingsályktun í tíu liðum sem varðaði skuldavanda íslenskra heimila sem til var kominn vegna efnahagshrunsins haustið 2008. Fimmti liður tillögunnar felur það í sér að lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengja skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Frumvarp þessa efnis var samþykkt á sumarþingi 2013.
Það sem ég vil velta upp með þessari umræðu er hvað veldur því að t.d. Hagsmunasamtök heimilanna hafa núna í rúmlega þrjú ár þurft að standa í málaferlum vegna lögmæti verðtryggingar. Hvað veldur því að málið fær ekki flýtimeðferð? Þetta stóra mál hefur tekið allt of langan tíma.
Afnám verðtryggingar
Þá kem ég að næsta efni ræðu minnar sem er afnám verðtryggingar. Sjötti liður þeirrar tillögu sem samþykkt var á sumarþingi 2013 felur í sér að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Fram kemur að tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í árslok 2013. Ríkisstjórnin skipaði sérfræðingahóp sem skilaði af sér tillögum og um var að ræða meirihlutaálit og sérálit. Deilt var um hvaða leið væri best, en allir voru sammála um markmiðið, þ.e. afnám verðtryggingar.
Nú er það svo að verðtryggingarmálin eru á borði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Nú verðum við að fá að vita hver næstu skref eiga að vera og mikilvægt er að þau verði tímasett á allra næstu dögum.“
Elsa Lára Arnardóttir — í störfum þingsins  20. október 2015.