Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi

Deila grein

21/10/2015

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi haldið á Akureyri 17. október 2015 fagnar þeim árangri sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur náð í ríkisrekstri. Undir forystu Framsóknarflokksins hefur hagsæld aukist og lífsgæði batnað. Liður í því er leiðrétting húsnæðislána sem ber að fagna.
Þingið telur að afnema beri verðtryggingu af neytendalánum og þak sett á vexti.
Þingið styður áform ríkisstjórnarinnar um að fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða á leigumarkaði. Sérstaklega verður að huga að úrræðum fyrir þá sem hyggja á kaup á sinni fyrstu fasteign.
Reykjavíkurflugvöllur skal vera í Vatnsmýrinni í núverandi mynd. Tryggja verður fjármuni í viðhald og rekstur innanlandsflugvalla. Þingið lýsir ánægju með vinnu við að opna fleiri fluggáttir inn í landið. Þannig skapast grundvöllur fyrir vöxt í ferðaþjónustu með dreifingu ferðamanna um landið.
Góðar samgöngur eru grunnur að samfélagsþróun. Aukið viðhald og endurbætur malarvega í kjördæminu eru sérlega brýn ásamt áframhaldandi uppbyggingu vegakerfisins. Þær stórframkvæmdir sem nú standa yfir við Norðfjarðar- og Vaðlaheiðargöng eru fagnaðarefni og hvatt er til þess að vinnu við Norðfjarðargöng verði flýtt. Nauðsynlegt er að halda áfram undirbúningsrannsóknum vegna Fjarðaheiðaganga.
Tryggja þarf fjárveitingar í áframhaldandi þróun almenningssamgangna á landi. Mikilvægt er að litið verði á innanlandsflug sem einn lið í almenningssamgöngum. Efla þarf Hafnabótasjóð vegna nýframkvæmda og viðhalds.
Þingið leggur áherslu á að þeirri vinnu sem unnin hefur verið á vegum ríkisstjórnarinnar varðandi ljósleiðaravæðingu dreifbýlisins verði fylgt eftir með framkvæmdaáætlun og fjárveitingum.
Þingið hvetur til aukinna framlaga til heilsugæslu og sjúkrahúsa. Vinna þarf markvisst að áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og þróun öldrunarþjónustu sem tekur mið af aðstæðum á hverjum stað.
Þingið leggur áherslu á sjálfstæði Háskólans á Akureyri og að hann haldi faglegum og fjárhagslegum styrk til að þjóna hlutverki sínu, m.a. á sviði málefna Norðurslóða.
Þingið leggur áherslu á mikilvægi framhaldsskóla fyrir þróun samfélagsins. Jafnframt er bent á nauðsyn eflingar starfsnáms vegna fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar s.s. í ferðaþjónustu og iðnaði. Þingið lýsir yfir miklum áhyggjum af fjársvelti til framhaldsskóla í kjördæminu og leggur áherslu á að þeir fái tækifæri til að þróast og móta samstarf í takt við nærsamfélagið. Þingið undirstrikar hlutverk LÍN til að tryggja jafna möguleika til náms óháð efnahag og búsetu.
Þingið fagnar jöfnun raforkusverðs til húshitunar enda er það liður í jafnrétti til búsetu.
Þingið bendir á mikilvægi þess að flutningur á raforku sé tryggður til atvinnuuppbyggingar.
Þingið lýsir yfir ánægju með tillögu ríkisstjórnarinnar um aukna fjárveitingu til móttöku flóttafólks og hvetur til þess að áfram verði unnið að því að auka skilvirkni í málefnum hælisleitenda. Þá er hvatt til þess að ríki og sveitarfélög vinni saman við móttöku flóttafólks.
Þingið hvetur til þess að unnið verði í samræmi við löggæsluáætlun á hverjum tíma sem felur m.a. í sér aukið öryggi íbúa.
Þingið fagnar fyrirætlunum Íslands um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda um 40% í samvinnu við Noreg og Evrópusambandið og hvetur ríkisstjórnina til að setja sér skýr markmið varðandi innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og sjálfbærrar landnýtingar og verndar. Skipulagi þarf jafnframt að fylgja fjármagn til fyrirbyggjandi aðgerða og uppbyggingu auðlindanna.
Hækka ber lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja til samræmis við lágmarkslaun. Lyfjakostnaður verði lækkaður. Styðja þarf betur einstaklinga sem lenda í langtímaatvinnuleysi og fjölga úrræðum.
Þingið beinir því til ríkisstjórnarinnar að nýgerður samningur um innflutning á búvörum skerði ekki innlenda framleiðslu, hreinleika hans og heilbrigði.
Endurskoða verður tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga þannig að fjármagn fylgi verkefnum.