Categories
Fréttir

Eiga pening fyrir gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli

Deila grein

06/12/2018

Eiga pening fyrir gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli

Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, ræddi samgöngumálin í störfum þingsins í gær, miðvikudag.
„Samgöngumálin hafa verið í brennidepli þessa vikuna og síðast í gær kom út skýrsla starfshóps sem fjallaði um innanlandsflug og rekstur flugvalla með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnarinnar undir forystu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar. Aðgerðirnar sem hópurinn leggur til koma að mínu mati til með að leysa ýmsan vanda sem við hefur verið að etja, til að mynda varðandi millilandaflug, með því að varaflugvöllunum í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum er gefið aukið vægi. Það gefur væntingar um að þær framkvæmdir sem eru nauðsynlegar við þá velli fari af stað. Það mun styrkja vellina til að veita þá þjónustu og það öryggi sem þeir eiga að standa fyrir,“ sagði Ásgerður.
„Ég vil einnig minna á mikilvægi þess að opna fyrir umferð lítilla og meðalstórra flugvéla til og frá landinu um Hornafjarðarflugvöll sem er bæði stuðningur við svæðið varðandi ferðaþjónustuna og svo mikið flugöryggisatriði fyrir vélar, til að mynda í ferjuflugi.
Innanlandsflugið á að vera einn liður í almenningssamgöngunum og er hluti af þessari skýrslu. Sú staðreynd að það sé hægt að fá flugfar til og frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll fyrir sama verð og almennt fargjald aðra leiðina til Hornafjarðar, Ísafjarðar eða Egilsstaða er ekki boðlegt ástand. Því fagna ég innilega fyrir hönd landsbyggðarinnar að hin svokallaða skoska leið eða útfærsla af henni sé komin í vinnslu og lagt til að það fyrirkomulag taki gildi árið 2020. Aðgengi að þjónustu sem er stöðugt gerð miðlægari á höfuðborgarsvæðinu á að vera sjálfsagt fyrir alla landsmenn.
Til viðbótar má telja að leikhús allra landsmanna, t.d. Þjóðleikhúsið, hljómsveit allra landsmanna, Sinfóníuhljómsveitin, og flugvöllur allra landsmanna, aðalvöllurinn, Keflavíkurflugvöllur, sé á leið hér um og það er gott að við getum átt smápening fyrir gjaldeyri þegar við komum á Keflavíkurflugvöll.“
Ásgerður K. Gylfadóttir varaþingmaður í störfum þingsins 5. desember 2018.