Það eru góðar fréttir fyrir borgarbúa að á síðasta ári hafi tekist að snúa við hallarekstri borgarinnar. Við í Framsókn erum ánægð með að áherslur okkar um ráðdeild í rekstri hafi skilað þessum árangri.
Ársreikningur ársins 2024, sem birtur var í borgarstjórn á þriðjudag, sýnir að með kröftugu aðhaldi og útsjónarsemi í rekstri tókst að snúa um 5 milljarða halla frá árinu 2023 í tæplega 5 milljarða afgang á A-hluta. Samstæðan, þar sem fyrirtæki borgarinnar eru meðtalin, skilar 10,7 milljörðum í afgang og er það 14,2 milljörðum betri niðurstaða en árið áður. Skuldaviðmið lækkar og veltufé frá rekstri eykst.
Þegar kjörtímabilið hófst var halli borgarsjóðs 16,3 milljarðar. Það hefur því verið stór áskorun þessa kjörtímabils að hagræða í rekstrinum en um leið að bæta og efla mikilvæga þjónustu við borgarbúa. Við í Framsókn lítum svo á að forsenda þess að geta bætt þjónustu við íbúa sé að reka borgina með ábyrgum hætti.
Við tókum í taumana
Í valdatíð Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar á síðasta kjörtímabili fjölgaði stöðugildum hjá borginni mjög mikið. Það hefur eðli máls samkvæmt afdrifarík áhrif á rekstur borgarinnar enda er stærstur hluti útgjalda borgarinnar laun til starfsmanna. Þessi vöxtur í fjölda stöðugilda var stöðvaður á síðasta ári með beitingu ráðningarreglna og betri yfirsýn yfir mönnun. Í fyrra bættist aðeins við 31 stöðugildi á þessum stærsta vinnustað landsins þar sem fyrir eru um 8.600 stöðugildi.
Fyrir síðustu kosningar lofuðum við í Framsókn borgarbúum að við myndum taka í hornin á ósjálfbærum rekstri borgarinnar. Það er gott að hafa getað staðið við loforðið og leyft tölunum að tala sínu máli. Á sama tíma og við höfum verið í því að hagræða höfum við forgangsraðað fjárfestingum í þágu leik- og grunnskólamála og innviðum fyrir húsnæðisuppbyggingu.
Nú er ár til kosninga og tekinn er við nýr meirihluti Samfylkingar og Sósíalista, Pírata, VG og Flokks fólksins. Þessi meirihluti er skipaður flokkum sem fá fleiri útgjaldahugmyndir en hugmyndir að hagræðingu. Ég hef því miklar áhyggjur af því hvað verður um afganginn frá síðasta ári.
Eyðum ekki um efni fram
Það verður að halda áfram á sömu braut. Ekkert stjórnkerfi er meitlað í stein og við verðum ávallt að vera tilbúin að gera breytingar. Við í Framsókn vildum gera nokkuð róttækar skipulagsbreytingar sem leitt hefðu til bæði bættrar þjónustu og hagkvæmari rekstrar. Núverandi borgarstjóri Samfylkingarinnar lagðist gegn þeim hugmyndum og því náði málið ekki lengra innan síðasta meirihluta.
Það var rétt af Framsókn að sprengja meirihlutann og freista þess að mynda nýtt samstarf með flokkum sem voru tilbúnir til að taka nauðsynlegar ákvarðanir í rekstrarmálum, skipulags- og húsnæðismálum og horfa til lengri framtíðar í borgarmálum. Við í Framsókn höfum efnt loforð okkar til borgarbúa um breytingar í fjármálum borgarinnar en verkefninu er ekki lokið. Trúnaður okkar við kjósendur skiptir öllu máli og við erum tilbúin að leggja allt undir til þess að efna orð okkar gagnvart þeim.
Enn eru mikilvæg verkefni sem verður að leysa og það gerum við ekki án fjárhagslegs svigrúms. Það þarf að fjárfesta í skólakerfinu svo börnin okkar fái betri menntun og kennarar búi við betri starfsaðstæður til að sinna starfi sínu.
Við þurfum að eiga fyrir fjárfestingum í innviðum fyrir ný íbúðahverfi og brýnt er að létta undir með heimilum og fyrirtækjum með því að lækka fasteignagjöld. Við þurfum að halda áfram að bæta reksturinn til þess að geta búið þannig um samfélag eldra fólks að það lifi hamingjusömu og heilbrigðu lífi og til að geta stutt við félagsstarf sem dregur úr einmanaleika.
Það er skylda okkar að mæta betur væntingum fólks um borg þar sem einfalt og gott er að búa. Við í Framsókn höfum sýnt að við kunnum að taka á málum, snúa tapi í hagnað, án þess að skerða mikilvæga þjónustu. Nú þjónum við borgarbúum úr stöðu stjórnarandstöðu og hlökkum til næstu kosninga.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarmanna í borgarstjórn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. maí 2025.