Categories
Fréttir

„Ekki nóg að þjóðin vakni upp við mikilvægi íslenskra matvæla einu sinni á áratug“

Deila grein

27/03/2020

„Ekki nóg að þjóðin vakni upp við mikilvægi íslenskra matvæla einu sinni á áratug“

„Það er ekki nóg að þjóðin vakni upp við mikilvægi íslenskra matvæla einu sinni á áratug – við þurfum að ljúka gerð matvælastefnu þar sem fæðuöryggi er sett á oddinn enda mikilvægur hluti almannavarna,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í yfirlýsingu á Facebook í dag.
Rifjar Líneik Anna upp viðtal í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni við alþingismanninn, Silju Dögg Gunnarsdóttur, það sem hún segir fæðuöryggi snúist um tvennt, „matvælaöryggi“, að fæðan sem við fáum sé örugg, laus við allskyns sýkingar og þess háttar og hins vegar fæðuöryggi, að nægt framboð af mat sé til staðar.

Hér að neðan er brot úr viðtali við Silju Dögg Gunnarsdóttur, alþingismann Framsóknar í Suðurkjördæmi, í febrúar 2017:

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að stefna stjórnvalda varðandi fæðuöryggi, sé ábótavant. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í dag.
„Ég las stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fór sérstaklega yfir landbúnaðarmálin og mér fannst þetta mjög rýrt og óskýrt.“
„Þetta snýst um tvennt, þetta snýst annarsvegar um matvælaöryggi, það er að segja, að fæðan sem við fáum sé örugg, laus við allskyns sýkingar og þess háttar. Við búum sem betur fer við mjög gott matvælaöryggi á Íslandi í dag. “
„Hin hliðin er fæðuöryggi, að nægt framboð af mat sé til staðar. Við erum ekki með heildstæða stefnu hvað varðar fæðuöryggi í dag.“
„Mig langar til að heyra hvaða skoðanir ráðherra hefur á því, vegna þess að við búum á eyju. Bilanir á rafmagnskerfi, skortur á olíu, náttúruhamfarir og höft á innflutningi geta haft veruleg áhrif á fæðuöryggi, vegna þess að við erum með litlar matarbyrgðir.“
Erum við sjálfum okkur næg, ef eitthvað kemur upp, getum við framleitt nóg ofan í okkur?
„Ég þori ekki að segja nákvæmlega til um það, ég veit ekki til þess hvort það séu til mælingar á því en við höfum gríðarleg tækifæri. Við erum með jarðhita, fiskinn í sjónum og ýmislegt fleira.“
„Til að mynda erum við að flytja inn gífurlegt magn af grænmeti. Við erum að flytja inn um 22 þúsund tonn af ári, á meðan við erum sjálf að framleiða um 15 þúsund tonn. Ég hef rætt mikið við garðyrkjubændur á suðurlandinu og það er mjög lítil nýliðun í þeim bransa, vegna þess að fjárfestingarkostnaðurinn og raforkukostnaður er hár.“
„Þarna geta yfirvöld án efa komið með aðgerðir til þess að bæta umhverfi garðyrkjunnar.“
„Mér finnst umræðan um innflutning mjög hávær og taka annað yfir. Mér finnst mikill tvískinnungur í því, því nú er vinsælt að tala um loftlagsmálin og matarsóun en það að flytja ekki matvæli á milli landa, fækkar kolefnisfótsporunum og dregur úr matarsóun.“