Categories
Fréttir

„Ekki verið að færa aukið vald yfir orkumálum Íslands til Evrópu“

Deila grein

20/05/2019

„Ekki verið að færa aukið vald yfir orkumálum Íslands til Evrópu“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í ræðu á Alþingi, 14. maí s.l., ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn. Í ræðu sinni rakti Silja Dögg mikilvægi þess að orka verði í eigu almennings og að sú ákvörðun sé í höndum íslenskra stjórnmálaflokka, ekki í höndum Evrópusambandsins. Framsóknarflokurinn væri skýr með þetta atriði og að mikilvægt væri að aðrir flokkar myndu skýra sína afstöðu. Einnig fór Silja Dögg yfir að með orkupakkanum væri ekki verið að taka ákvörðun um það hvort leggja eigi sæstreng eða á annan hátt framselja valdheimildir íslenskra yfirvalda til slíkrar ákvarðanatöku. Ítrekaði hún að ekki verið væri að taka ákvörðun um framsal valds til ACER. Fram kom hjá Silju Dögg að  meginbreytingin frá orkupakka tvö í þrjú væri að Orkustofnun hafi auknar heimildir til eftirlits á raforkumarkaði, Orkustofnun væri íslenskt stjórnvald og verði það áfram, ekki afgreiðslustofnun eða útibú frá ACER.
Í lok ræðu sinnar sagði Silja Dögg að hlustað hafi verið á gagnrýnisraddir og að þær hafi hjálpað mikið til við að bæta málið. „Framundan er vinna við orkupakka fjögur og fimm. Við þurfum að vera vel vakandi við þá vinnu og gæta hagsmuna okkar í hvívetna. Einnig er mikilvægt að tryggja að eignarhald orkufyrirtækja verði áfram hjá hinu opinbera, opinberum fyrirtækjum. Við þurfum að ljúka við orkustefnu sem er á teikniborðinu og gerð eigendastefnu fyrir Landsvirkjun og Landsnet sem og að uppfæra stjórnarskrá okkar og þá á ég við auðlindaákvæðið og heimildir um valdaframsal. Að mínu mati myndi það styrkja málið verulega ef sett yrði inn ákvæði í frumvarp um sæstreng er varða þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Silja Dögg.
Ræða Silju Daggar Gunnarsdóttur, alþingismanns, 14. maí.

„Hæstv. forseti. Umræðan um þriðja orkupakkann hefur dregið athygli þjóðarinnar að stefnumörkun í orkumálum, eignarhaldi auðlinda sem og utanríkismálum. Sú umræða hefur verið holl og skiptir máli til framtíðar. Við þurfum að tryggja að orkan verði í eigu almennings. Við þurfum að breyta lögum um vatnsréttindi og eignarhald á jörðum til að tryggja innlent eignarhald. Við ættum einnig þótt fyrr hefði verið að beita okkur fyrir því að aðeins verði um einn taxta að ræða fyrir dreifingu raforku. Allt sem nefnt hefur verið er íslensk pólitík. Þessar ákvarðanir eru í höndum íslenskra stjórnmálaflokka, ekki í höndum Evrópusambandsins. Það er líka í okkar höndum hvort við ætlum að halda áfram EFTA-samstarfinu. Það er í okkar höndum hvort við viljum leggja sæstreng. Það er í okkar höndum hvort við viljum vera áfram aðilar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
Herra forseti. Það er tími til kominn að íslenskir stjórnmálaflokkar stígi fram og geri grein fyrir hvar þeir standa í þessum málum. Það er alveg á hreinu hvar Framsóknarflokkurinn stendur. Við viljum tryggja eignarhald almennings á orkufyrirtækjum, að Landsvirkjun verði áfram í opinberri eigu og trygga innlent eignarhald á jörðum og vatnsréttindum. Við viljum að eitt og sama verð sé á dreifingu raforku fyrir alla. Við viljum styrkja þennan sameiginlega grunn og eignarhald, til að mynda sjáum við fyrir okkur að sameina Landsnet og Rarik. Við teljum að orkuauðlindin sé ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu og því þarf að tryggja að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga. Framsóknarflokkurinn telur tengingu við raforkukerfi Evrópu með sæstreng ekki þjóna hagsmunum landsmanna.
Umræðan um orkupakka þrjú í þjóðfélaginu hefur verið lífleg. Talsvert hefur borið á rangfærslum um hvert sé raunverulegt innihald pakkans. Sumir hafa haldið því fram að innleiðum við þriðja orkupakkann væri Alþingi að samþykkja eftirfarandi:

1. Að afsala okkur yfirráðum yfir auðlindum okkar með því að færa ACER, eftirlitsstofnun Evrópu, valdheimildir.

2. Að orkupakkinn skyldi okkar til að leggja sæstreng, virkja og flytja orku til erlendra ríkja.

3. Með því að neita að leggja sæstreng myndi íslenska ríkið skaðabótaskylt á grundvelli fjórfrelsis EES-samningsins þar sem orka er skilgreind sem vara samkvæmt honum og því væri bann við lagningu sæstrengs brot á viðskiptafrelsi Evrópska efnahagssvæðisins.

4. Þá halda sumir því fram að innleiðingu á orkupakka þrjú feli í sér einkavæðingu orkufyrirtækja.

Hæstv. forseti. Um þetta vil ég segja að það er eðlilegt að fólk velti slíku fyrir sér enda um mikla hagsmuni að ræða. Það er gott að svo margir hafi áhuga á málinu því að þá náum við að kalla fram margar hliðar og rannsaka málið út frá þeim. Því fór hv. utanríkismálanefnd vandlega yfir þessar fullyrðingar, fékk til sín fjölda gesta og umsagnir sérfræðinga og annarra sem höfðu eitthvað til málanna að leggja. Yfirferð nefndarinnar er vandlega skjalfest í nefndarálitinu, sem að mínu mati er mjög gott og ítarlegt. Þar er gerð grein fyrir niðurstöðu meiri hlutans sem er sú að ofangreindar fullyrðingar standist ekki skoðun. Það er ekki verið að brjóta gegn stjórnarskrá og um það er enginn lagalegur ágreiningur. Með orkupakkanum er ekki verið að taka ákvörðun um það hvort leggja eigi sæstreng eða á annan hátt framselja valdheimildir íslenskra yfirvalda til slíkrar ákvarðanatöku. Það er ekki verið að taka ákvörðun um framsal valds til ACER. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að aðrir en íslensk stjórnvöld hafi forræði um nýtingu orkuauðlinda. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að íslensk stjórnvöld þurfi að selja auðlindir sínar eða missi forræði á slíkum eignum sínum. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að íslensk stjórnvöld þurfi að selja eða einkavæða raforkufyrirtæki í sinni eigu. Ríkið er ekki skaðabótaskylt á grundvelli fjórfrelsisins ef það neitar að leggja sæstreng.
Herra forseti. Annar punktur sem mikið hefur verið ræddur í tengslum við málið er hvers vegna við séum að samþykkja orkupakkann þar sem við erum ótengd evrópskum raforkumarkaði, hann skipti okkur engu máli. Við ættum auðvitað að hafna honum á þeim forsendum og senda málið til baka til sameiginlegu EES-nefndarinnar, það sé hin rétta leið, eins og sumir vilja kalla það.
Þá er rétt að spyrja: Myndi höfnun á pakkanum þjóna hagsmunum Íslendinga betur en að samþykkja hann með framlögðum fyrirvörum? Er höfnun raunverulegur valkostur í ljósi samstarfs okkar í EFTA og gagnvart EES-samningnum?
Ísland gekk í EFTA árið 1970 og Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1994, fyrir 25 árum síðan. Að flestra mati voru þessar ákvarðanir framfaraskref. Þegar við samþykktum EES-samninginn var skoðað vandlega hvort upptaka samningsins bryti stjórnarskrá okkar. Svo var ekki. Það kom í ljós við vinnslu málsins að 102. gr., þar sem kveðið er á um að ríkið geti hafnað tilskipunum, er fyrst og fremst öryggisventill. Yfir þetta er farið mjög vandlega í nefndaráliti meiri hlutans. Greinin er tæki í samningsferlinu í nefndinni fyrir ríki til að skapa sér ákveðna samningsstöðu innan nefndarinnar. Það er ástæða fyrir því að engin fordæmi eru fyrir því í 25 ára sögu samningsins að ríki hafni tilskipunum eftir að ríki hafa lokið vinnu í sameiginlegu nefndinni og komið sér saman um niðurstöðu. Að gera slíkt væri misbeiting á réttindum okkar innan EFTA.
Herra forseti. Í meirihlutaáliti hv. utanríkismálanefndar er vandlega farið yfir þessa þætti eins og fyrr segir. Nefndin fékk m.a. á sinn fund títtnefndan Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins. Hann útskýrði m.a. að innan sameiginlegu EES-nefndarinnar hvílir sú ábyrgð á fulltrúum að leggja sig fram við að viðhalda góðri framkvæmd samningsins. Þessi regla er kölluð favor contractus upp á latínu og skiptir mjög miklu máli. Herra Baudenbacher talaði um að höfnun myndi án efa skaða hagsmuni íslenska ríkisins verulega og rökstuddi það mjög ítarlega. EFTA-ríkin verði að tala einni röddu gagnvart EES. Ísland er bundið hollustuskyldu gagnvart samstarfsríkjum sínum. Samstarf okkar byggist á gagnkvæmu trausti og náinni samvinnu þjóða og því gera bæði Liechtenstein og Noregur ráð fyrir því að við séum heil í okkar samstarfi og að við afléttum hinum stjórnskipulega fyrirvara í orkupakka þrjú sem þau hafa þegar gert.
Þannig að svarið er, herra forseti: Ástæða þess að við kjósum að innleiða reglur um orkumarkað með fyrirvörum er að við erum aðilar að innri markaði Evrópu og höfum verið það í 25 ár.
Sameiginlega EES-nefndin er sá vettvangur þar sem þjóðir geta aðlagað regluverkið aðstæðum í heimalandinu, fengið undanþágur og annað slíkt. Þjóðþing hafa ítrekaða aðkomu að því ferli eins og gerðist í okkar tilfelli og er einmitt rakið í nefndarálitinu þegar vinnan stóð við að innleiða orkupakka þrjú. Í starfi sameiginlegu nefndarinnar liggur sveigjanleikinn en ekki í því að hafna reglum þegar aðlögun hefur átt sér stað.
Hvenær og hvers vegna hófst þessi vegferð Íslendinga með innleiðingu á reglum um evrópskan orkumarkað? Hún hófst árið 2003 þegar við innleiddum orkupakka eitt. Með þeirri innleiðingu hófst í raun markaðsvæðing raforkukerfisins. Afleiðing þeirrar vegferðar var m.a. aukin samkeppni á markaði, aukin neytendavernd og lægra orkuverð til heimila, svo eitthvað sé nefnt. Nokkrum árum síðar, árið 2009 var orkupakki tvö innleiddur og hann er nú í gildi. Í svari hæstv. utanríkisráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni á þskj. 1315 á yfirstandandi löggjafarþingi kemur m.a. fram hvers vegna þessi ákvörðun var tekin og margt reyndar fleira varðandi alla orkupakkana þrjá og fjögur og fimm. Í svarinu er bent á ákvæði 2. mgr. 194. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, sem við erum reyndar ekki aðilar að en er grunnurinn að EES-samningnum að hluta til, þar sem fram kemur að ráðstafanir samkvæmt málsgreininni séu með fyrirvara um rétt aðildarríkis til að ákvarða með hvaða skilyrðum orkulindir þess eru nýttar, hvaða orkugjafa það velur og almenna tilhögun orkuafhendingar. Stefán Már Stefánsson, sem kom fyrir hv. utanríkismálanefnd og skilaði áliti, ítrekaði gildi 194. gr. sáttmálans og benti á að þar sem Ísland væri ekki í Evrópusambandinu mætti ætla að reglur Evrópusambandsins gengu ekki lengra hvað okkur varðar sem erum ekki aðilar að Evrópusambandinu.
Herra forseti. Rétt er að undirstrika að með innleiðingu orkupakka þrjú fellur orkupakki tvö úr gildi. En hvað er í pakkanum? Þar eru gerðir varðandi jarðgas en Ísland fékk undanþágu frá þeim. Það er krafa um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja. Ísland fékk undanþágu. Það eru ítarlegri ákvæði um sjálfstæði raforkueftirlits, nýmæli, m.a. um sjálfstæði frá aðilum á markaði og stjórnvöldum. Hnykkt er á þeim sterka neytendarétti sem einkennir alla orkupakkana og felst m.a. í skýrum rétti neytenda til að velja sér orkusala að vild, skipta hratt og auðveldlega um orkusala sem og að fá ítarlegar upplýsingar um orkunotkun og verðlagningu.
Fyrir okkur Íslendinga er meginbreytingin frá orkupakka tvö í þrjú sú að Orkustofnun fær auknar heimildir til eftirlits á raforkumarkaði. Það liggur ljóst fyrir að Orkustofnun er íslenskt stjórnvald og verður það áfram, ekki afgreiðslustofnun eða útibú ACER. Yfir þetta höfum við farið mjög vandlega í hv. utanríkismálanefnd. Þetta er alveg skýrt. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson fór vandlega yfir þetta í sinni ræðu.
Hér á landi starfa nokkur orkufyrirtækja á samkeppnismarkaði og um starfsemi þeirra gilda samkeppnislög eins og áður segir. Svo er ágætt að undirstrika það að hér á landi erum við einnig með raforkulög sem skipta máli í samhengi hlutanna. Ég tel að við getum verið sammála um að styrking Orkustofnunar sé hið besta mál.
Í þessu samhengi er rétt að nefna þær áhyggjur sem margir hafa haft varðandi þann fyrirvara sem Ísland setur gagnvart tilskipun 713/2009 sem snýr að ACER. Í fyrsta lagi var sleginn sá varnagli að leggja fram frumvarp sem kveður á um að ekki verði lagður sæstrengur án samþykkis Alþingis og endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar.
Í öðru lagi, til að skerpa á sérstöðu Íslands sem eyju með ótengt raforkukerfi við meginland Evrópu, sendu Miguel Arias Canete, orkumálaráðherra Evrópu og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, frá sér sameiginlega yfirlýsingu, dags. 20. mars á þessu ári. Í yfirlýsingunni kemur fram að gildandi ákvæði þriðja orkupakka ESB hafa engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og að ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum. Yrði sæstrengur lagður í framtíðinni hefði ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, ákvörðunarvald um málefni sem ná yfir landamæri en ekki ACER líkt og samþykkt hefði verið í aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem endurspeglar sjálfstæði stofnana EFTA undir tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
Í þriðja lagi varðandi fyrirvarana þá lögðu EFTA-ríkin sem eiga aðild að EES-samningnum, ríkin þrjú, Ísland, Noregur og Liechtenstein, fram sameiginlega yfirlýsingu í sameiginlegu EES-nefndinni, 8. maí sl., þar sem sérstaða Íslands hvað varðar innri raforkumarkaði ESB er enn frekar áréttuð. Í yfirlýsingunni kemur fram að ákvæði þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á full yfirráð ríkjanna yfir orkuauðlindum sínum, ráðstöfun þeirra og hagnýtingu. Ákvarðanir um samtengingu raforkukerfa þeirra og orkukerfs innri markaðar ESB væri ávallt á forræði þeirra. Komi til lagningar sæstrengs í framtíðinni sé fyrirkomulagið þannig að ESA úrskurði um ágreiningsmál varðandi Ísland en ekki ACER. Það er í fyllsta samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
Þetta eru lykilskjöl í málinu, herra forseti. Með þessum yfirlýsingum og frumvarpi um sæstreng frá hæstv. iðnaðarráðherra er tryggt að fyrirvarar Alþingis halda til framtíðar. Þeir hafa óumdeilanlega lagalegt gildi, þjóðréttarlegt gildi, og því er afar mikilvægt við afgreiðslu málsins að árétta að þeir séu forsenda afgreiðslu málsins.
Nefnt hefur verið að fyrirvarar muni ekki halda þrátt fyrir allt og sumir byggja þá skoðun sína á hráakjötsmálinu svokallaða. Þessi tvö mál er ekki sambærileg. Í kjötmálinu komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði ekki innleitt samningsskuldbindingar sínar samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar með réttum hætti. Innleiðing á Íslandi var gerð þannig að frumvarp til laga vegna innleiðingar var lagt fram á Alþingi nokkrum sinnum. Þegar það var loks samþykkt eftir nokkrar tilraunir var það í nokkuð breyttri mynd frá því sem upphaflega var lagt til, til að innleiða umræddar gerðir. Þarna voru gerð mistök af hálfu Alþingis. Þetta var ekki rétt gert. Nú erum við að tala um allt aðra hluti.
Niðurstaða mín er sú að við höfum búið þannig um hnútana í þessu máli að fyrirvarar muni örugglega halda. Við erum í raun ekki bara komin með belti og axlabönd eins og við í Framsóknarflokknum höfum lagt mikla áherslu á frá upphafi, heldur erum við komin með, ja, hvað skal segja, álímdan hártopp, smekkbuxur og nýja skó.
Herra forseti. Það er ekki verið að færa aukið vald yfir orkumálum Íslands til Evrópu. Ekkert slíkt felst í þriðja orkupakkanum og málið snýst því ekki um það. Sérstaða Íslands með einangrað raforkukerfi er áréttuð með lagalegum fyrirvara í þingsályktunartillögunni sjálfri og í sameiginlegri tilkynningu utanríkisráðherra Íslands og framkvæmdastjóra orkumála hjá framkvæmdastjórn ESB, ásamt bréfi dags. 8. maí sl. frá EFTA-ríkjunum sem ég hef áður fjallað um.
Við höfum hlustað á gagnrýnisraddir. Þær athugasemdir hafa hjálpað til við að bæta málið. Fram undan er vinna við orkupakka fjögur og fimm. Við þurfum að vera vel vakandi við þá vinnu og gæta hagsmuna okkar í hvívetna. Einnig er mikilvægt að tryggja að eignarhald orkufyrirtækja verði áfram hjá hinu opinbera, opinberum fyrirtækjum. Við þurfum að ljúka við orkustefnu sem er á teikniborðinu og gerð eigendastefnu fyrir Landsvirkjun og Landsnet sem og að uppfæra stjórnarskrá okkar og þá á ég við auðlindaákvæðið og heimildir um valdaframsal. Að mínu mati myndi það styrkja málið verulega ef sett yrði inn ákvæði í frumvarp um sæstreng er varða þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég vil þakka formanni nefndarinnar fyrir afar gott utanumhald í störfum nefndarinnar, gott skipulag, góða upplýsingagjöf til nefndarmanna og nefndarmönnum utanríkismálanefndar fyrir samstarfið. Ég tel, varðandi þær efasemdir sem sum okkar kunna að hafa haft í upphafi við vinnslu málsins, að við höfum fengið gott pláss til að fara yfir þær og fá svör við þeim spurningum sem á okkur brunnu, þannig að ég get ekki annað en hrósað formanni nefndarinnar og nefndarmönnum fyrir mjög gott samstarf og ítarlega yfirferð.
Að lokum vil ég gera orð formanns Framsóknarflokksins, Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem hann ritar í grein í Kjarnanum í dag að mínum þar sem hann segir, með leyfi forseta:
„Það er mikilvægt þegar kemur að auðlindum Íslands að tryggja full yfirráð þjóðarinnar yfir þeim. Það er mikilvægt að við hugsum um hagsmuni heildarinnar — í bráð og lengd. Það er einnig mikilvægt að við tökum ákvarðanir um hagsmuni þjóðarinnar á réttum forsendum. Að við göngum ekki inn í stjórnmál reiðinnar, stjórnmál óttans, og gerum þau að okkar lögheimili og varnarþingi.““