Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður #2

Deila grein

30/05/2017

Eldhúsdagsumræður #2

,,Hæstv. forseti. Ágætu landsmenn. Það er rétt á þessum tímapunkti að líta um öxl og horfa yfir farinn veg. Að mörgu leyti er ástandið bærilegt, en höfum við gengið götuna til góðs, höfum við nýtt okkur tækifærin með forsvaranlegum hætti?
Ný ríkisstjórn boðaði ný vinnubrögð, aukið samstarf meiri hluta við minni hluta, stórfellt átak í heilbrigðismálum, skólamálum, samgöngum og ég veit ekki hvað. Reyndar gekk formaður Viðreisnar svo langt í umbótahjalinu að hann vildi setja á stofn starfshóp um bætt vinnubrögð á Alþingi. Í ljósi reynslunnar verður það að skoðast eins og hvert annað gamanmál sem frá hæstv. ráðherra kemur.
Stjórnarsáttmáli einnar mestu hægri stjórnar lýðveldissögunnar var síðan kynntur um miðjan janúar á þessu ári. Hvað er þar að finna? Heldur lítið. Þar hafa frasasmiðir fengið að valsa um lyklaborðið, það á að skoða hitt og þetta. Loforð virðast vera orðin að áherslum. Af þeirri ástæðu er áhugavert við lok þessa þings að skoða hvar stjórnarflokkarnir ganga í takt. Misræmi í málflutningi ráðherra og þingmanna er slíkt að ímynda má sér að ekki sé neitt gaman í þeirra bekk, eins og pilturinn sagði.
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra deila í erlendum fjölmiðlum. Formaður utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra deila ítrekað um stefnu Íslands í utanríkismálum sem trauðla er til þess fallið að auka traust á alþjóðlegum vettvangi. Nefnd um peningastefnu hefur verið sett á laggirnar og þar er lagt upp með krónuna sem framtíðargjaldmiðil landsins, en því er fjármálaráðherra ósammála eins og alkunna er.
Sáttanefnd í sjávarútvegsmálum var sett á laggirnar og enginn veit hvað út úr því kemur. Í stuttu máli þýðir þetta að engar afgerandi kerfisbreytingar verða líkt og Viðreisn lofaði fyrir kosningar.
Hæstv. samgönguráðherra virðist svo á leiðinni fram einhverja einstefnugötu. Hann fór vægast sagt sérstökum höndum um samgönguáætlun þar sem hann virtist ætla að sniðganga þingið með því að forgangsraða verkefnum bara sisona einn og óstuddur. Duglegur að vanda, hæstv. ráðherra, en þetta þurfum við að vinna saman.
Um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu hér á landi ríkir engin sátt, ekki hér inni, ekki innan stjórnarinnar og ekki innan atvinnugreinarinnar. Ástæðan er að hækkun á þessum tímapunkti kemur verst út fyrir landsbyggðina. Halda menn virkilega að hið sama gildi um stórar hótelkeðjur í höfuðborginni og lítið gistiheimili á landsbyggðinni? Ég hlýt að spyrja: Hvert er þessi ríkisstjórn að fara?
Frú forseti. Almannahagsmunir ofar sérhagsmunum, skrifar fjármálaráðherra í nýrri grein. Þetta hljómar fallega og um þetta held ég að allir séu sammála. Veruleikinn er hins vegar ekki alltaf svona einfaldur. Eru það ekki almannahagsmunir að halda landinu í byggð? Við Framsóknarmenn höfum bent á leiðir til þess með því að nota t.d. skattkerfið til að jafna aðstöðumun. Þetta létum við kanna við gerð síðustu byggðaáætlunar sem var svo gott sem klár í janúar en hefur ekki enn sést í þinginu. Eru það sérhagsmunir í Noregi og Svíþjóð þar sem stjórnvöld beita ýmsum hvötum í því verkefni að halda löndum sínum í byggð, m.a. skattalegum hvötum, þ.e. að þeir sem búa á köldum svæðum, dreifbýli, borga lægri skatta en þeir sem búa nær höfuðborginni?
Til að matvælaframleiðsla á Íslandi blómstri er mikilvægt að halda landinu í byggð. Það gerist svo sannarlega ekki af sjálfu sér. Við þurfum að hugsa lengra en núverandi ríkisstjórn gerir. Þess vegna höfum við Framsóknarmenn m.a. lagt fram þingsályktunartillögu um stefnu vegna ríkisjarða. Meðferð þeirra og nýting er atvinnugreininni mikilvæg og er liður í byggðafestu.
Þá höfum við líka lagt fram tillögur að auknum tekjum til sveitarfélaga en þau kalla stíft eftir sterkari tekjugrunni. Á síðasta kjörtímabili var lögfest að ríkið, sveitarfélög og höfuðborg skuli í sameiningu vinna að mótun byggðastefnu og sóknaráætlana. Ég er sannfærð um að lögin muni stuðla að markvissari uppbyggingu landsins en þá þarf áætlunin að koma fram og við bíðum eftir því.
Í ljósi þess hve illa gengur að setja mál fram hjá hæstv. ríkisstjórn höfum við Framsóknarmenn lagt fram fjöldamargar prýðisgóðar hugmyndir og leiðir til úrbóta. Strax í upphafi lögðum við fram heilbrigðisáætlun því að ákall eftir henni var og er mikið. Heilbrigðisþjónusta og menntamál eru mikilvægir þættir í jafnrétti til búsetu. Að þessum þáttum hefur ekki verið hugað nægilega vel. — Gleðilegt sumar og góðar stundir.”
Þórunn Egilsdóttir í almennum stjórnmálaumræðum 29. maí 2017