Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður #3

Deila grein

30/05/2017

Eldhúsdagsumræður #3

,,Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Undanfarinn þingvetur hefur verið afar tíðindalítill frá því að hæstv. ríkisstjórn tók við völdum. Hins vegar hefur þessi tími verið afar áhugaverður hvað varðar ágreining innan hæstv. ríkisstjórnar um ýmis áherslumál ríkisstjórnarflokkanna. Má þar meðal annars nefna ágreining um stærsta mál hæstv. fjármálaráðherra, ríkisfjármálaáætlunina, og þau áform sem þar voru um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu.
Ríkisfjármálaáætlun felur í sér afar lítið svigrúm til innviðauppbyggingar. Þar er stofnkostnaði og rekstrarkostnaði víða blandað saman, sérstaklega þegar kemur að heilbrigðismálum. Það gefur skakka mynd af raunaukningu til málanna. Þetta er alls ekki í samræmi við loforð ríkisstjórnarflokkanna né áherslur í aðdraganda alþingiskosninga. Allir flokkar töluðu um mikilvægi innviðauppbyggingar en hana er ekki að finna í umræddri ríkisfjármálaáætlun.
Hvernig stendur á því að 13 milljarða vantar til að klára byggingu á nýjum Landspítala? Og hvernig stendur á því að 7 milljarða vantar til að klára endurnýjun á eldri deildum spítalans? Hér er ekki að sjá að hæstv. ríkisstjórn sé að standa við gefin loforð um að bæta aðbúnað starfsfólks og sjúklinga á Landspítala þar sem svo virðist sem fjármunir fylgi ekki settum markmiðum.
Það sama má segja um framlög til heilsugæslunnar. Þar eru gefnar upp villandi upplýsingar af raunaukningu til málaflokksins. Það er því ekki hægt að sjá hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að styrkja heilsugæsluna um land allt sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Stór hluti af fjármagni til málaflokksins fer í byggingu á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.
Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Við Framsóknarmenn bendum á leiðir til innviðauppbyggingar. Minnkum aðhaldskröfu ríkisfjármálaáætlunar til samræmis við fyrri áætlun og drögum úr niðurgreiðslu skulda. Ráðumst í framkvæmdir, sérstaklega á svæðum þar sem þenslan er lítil.
Góðir landsmenn. Undanfarið hefur samfélagið kallað eftir bættu heilbrigðiskerfi og var það áberandi í aðdraganda síðustu kosninga. Ákall samfélagsins sýnir fram á mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fé til málaflokksins með markvissum hætti. Forgangsmál Framsóknarmanna á þessu þingi var að unnin væri heilbrigðisáætlun. Þessi áætlun var lögð fram þar sem enga heilbrigðisáætlun var að finna á þingmálaskrá hæstv. ríkisstjórnar. Samkvæmt heilbrigðisáætluninni skal skýra verkferla innan kerfisins og skilgreina hvaða aðilar eigi að veita þjónustu. Koma skal fram hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og/eða æskilegt.
Heilbrigðisáætlunin skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt skal tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu með utanspítalaþjónustu. Taka skal tillit til forvarna, lýðheilsu, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða. Í áætluninni skal koma fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þannig álagi af okkar góða sjúkrahúsi, Landspítala.
Við gerð heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar að af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur. Fjármálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti skulu koma að vinnu heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í helbrigðisgreinum.
Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Annað af forgangsmálum okkar Framsóknarmanna var tillaga um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs en það mál virðist hafa sofnað í hv. efnahagsnefnd Alþingis. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir heimili landsins. Tillagan snýst um að taka húsnæðisliðinn út úr útreikningum vísitölunnar og samkvæmt fréttum í dag er tólf mánaða verðbólga nú 1,7% en hún væri neikvæð um 2,6 prósentustig ef stuðst væri við samræmda vísitölu neysluverðs.
Góðir landsmenn. Auk þessa höfum við Framsóknarmenn lagt áherslu á að lækka enn frekar greiðsluþátttökukerfi sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og koma til móts við þá sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu fjarri heimabyggð. Við munum halda áfram á þessari vegferð og við hlökkum til að berjast áfram fyrir góðum málum.
Að lokum vil ég óska ykkur öllum velfarnaðar. — Góðar stundir og hafið það gott í sumar.”
Elsa Lára Arnardóttir í almennum stjórnmálaumræðum, 29. maí 2017