Ísland stendur frammi fyrir miklum tækifærum á komandi áratugum. Að tryggja sjálfbæra þróun landsins, bæði efnahagslega og samfélagslega, krefst skýrrar stefnumörkunar sem byggist á verðmætasköpun, nýtingu landfræðilegrar legu landsins og að sjálfstæði þjóðarinnar verði tryggt ásamt áframhaldandi yfirráðum yfir auðlindum þjóðarinnar.
Verðmætasköpun undirstaða velferðar
Efnahagsleg velgengni Íslands hefur ávallt byggst á verðmætasköpun, sem í sögulegu samhengi hefur verið drifin áfram af sjávarútvegi, iðnaði, landbúnaði og orkuframleiðslu. Seinna meir hafa ferðaþjónusta, þekkingargreinar og skapandi greinar sótt fram og skapað ný verðmæti. Stoðum íslenska hagkerfisins hefur fjölgað verulega síðustu misseri og því hefur landsframleiðslan vaxið og gjaldmiðillinn verið nokkuð stöðugur. Smæð hagkerfisins gerir það að verkum að við framleiðum ekki alla hluti. Af þeim sökum þarf Ísland að reiða sig á útflutningsgreinar og frjáls alþjóðaviðskipti. Af þeim ástæðum má búast við því að sveiflur verði meiri hér en hjá stærri ríkjum og verðum við að búa við það. Það er því mikilvægt að skuldir hins opinbera séu minni en algengt er í nágrannaríkjunum og gjaldeyrisforði meiri. Á síðasta áratug hefur þjóðin náð að snúa viðskiptajöfnuði og erlendri skuldastöðu við útlönd í jákvæða stöðu. Hér hefur hagvöxtur verið umtalsvert meiri en í nágrannaríkjunum, sem hefur skilað sér til hagsældar fyrir almenning.
Nýtum tækifærin í landfræðilegri legu okkar
Það felast bæði tækifæri og áskoranir í landfræðilegri legu okkar. Ísland gegndi lykilhlutverki í viðskiptum á milli Grænlands og nágranna okkar á þjóðveldistímanum. Á þessum tíma má leiða líkur að því að á Íslandi hafi ríkt velmegun og bera merkar bókmenntir þjóðarinnar klárlega þess vitni. Um miðbik síðustu aldar hafði lega landsins afgerandi áhrif í átökum stórveldanna og tengdist Ísland með miklum hraða í atburðarás heimsmála og þessi tenging markaði afdrifarík spor á atvinnu- og menningarlíf þjóðarinnar. Með því að nýta þessa staðsetningu markvisst getur Ísland vaxið og orðið miðstöð samgönguflutninga, gagnavera og skapandi greina. Flug- og hafnarmannvirki landsins eru lykillinn að þessari þróun og beintengja okkur við markaði og menningu beggja vegna Atlantsála. Með því að fjárfesta í samgönguinnviðum þjóðarinnar getur Ísland orðið frekari samgöngumiðstöð út frá landfræðilegri legu sinni. Mikilvægi norðurslóða er að aukast vegna loftslagsbreytinga og því eru að opnast nýjar siglingaleiðir sem gætu sett Ísland í lykilstöðu fyrir norðurslóðaviðskipti. Stafrænn heimur skapar einnig möguleika. Ísland býr yfir kaldri veðráttu og umhverfisvænni orku, sem gerir landið að kjörlendi fyrir gagnaver. Með því að styrkja netinnviði okkar og efla alþjóðlega samvinnu um gagnatengingar getur Ísland orðið miðstöð fyrir stafræna þjónustu í framtíðinni.
Tryggjum áframhaldandi sjálfstæði þjóðarinnar
Fullveldis- og sjálfstæðissaga Íslands einkennist af framförum og lífskjarasókn. Sjálfstæð nýting auðlinda okkar er grundvöllurinn fyrir áframhaldandi vexti þjóðarinnar. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi sjálfstæði Íslands á sviði orkumála, sjávarútvegs og annarra náttúruauðlinda. Í sjávarútvegi er það forsenda sjálfbærni að nýting sé byggð á vísindalegum rannsóknum og að arðurinn nýtist samfélaginu sem heild. Á sama hátt þarf að stýra orkuframleiðslu þannig að hún tryggi hagkvæmni og umhverfisvernd í senn. Regluverk í þessum efnum má ekki verða til þess að ákvörðunarferli í málaflokknum verði svo þungt að það fari að bitna á tækifærum landsins til frekari sóknar. Að sama skapi þarf að tryggja að Landsvirkjun verði áfram að fullu í opinberri eigu. Hugmyndir sem reglulega hefur verið fleygt fram af hægri væng stjórnmálanna um að selja hlut í fyrirtækinu eru til þess fallnar að raska hinni breiðu samfélagslegu sátt um eignarhald í fyrirtækinu.
ESB-aðild styður ekki íslenska hagsmuni
Hagsæld fæst ekki með umfangsmikilli skattlagningu eða með því að fela stjórn mála í hendur annarra. Enn verra er að blanda þessu tvennu saman. Samkvæmt gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur hagvöxtur hér verið meira en helmingi hærri frá aldamótum en á evrusvæðinu. Atvinnuleysi hefur jafnframt verið hér helmingi minna og atvinnutekjur að meðaltali einna hæstar innan evrópska efnahagssvæðisins. Verðbólga hefur að vísu verið hér helmingi hærri, en búast má við því að verðlag og vextir verði hér hærri, jafnvel í myntsamstarfi, vegna smæðar hagkerfisins. Í Evrópusambandinu yrði Ísland einn hæsti nettógreiðandinn í sameiginlega sjóði og í myntsamstarfi gæti Ísland verið að taka á sig ábyrgð á skuldbindingum þjóða sem ekki hafa verið jafn ráðdeildarsamar og Ísland í söfnun sameiginlegra sjóða og skulda hins opinbera. Í vikunni birti Evrópski seðlabankinn einmitt árlegt yfirlit um fjármálastöðugleika þar sem varað var við fjárlagahalla og háum skuldahlutföllum innan svæðisins í samhengi við neikvæða þróun hagvaxtar og framtíðarhorfum í ljósi stefnumótunar á þessu sviði. Bankinn gaf jafnframt til kynna að ef ekki yrði stefnubreyting væru horfur á skuldakreppu hjá einstökum ríkjum. Evrópusambandið stendur í leitinni að hagvexti, á meðan því hefur ekki verið til að dreifa á Íslandi. Við eigum að halda áfram því góða samstarfi sem við eigum við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins en ekki fara að leggja íslenska stjórnkerfið undir í margra ára aðlögunarviðræður við ESB vitandi að aðild þjónar ekki íslenskum hagsmunum. Okkur farnast best með því að stjórna okkur sjálf.
Framtíð Íslands er björt
Framtíð Íslands byggist á því hvernig við nýtum auðlindir okkar, landfræðilega stöðu og mannauð. Með skýrri stefnu sem tryggir verðmætasköpun, nýtingu landfræðilegra tækifæra og verndun sjálfstæðis og auðlinda getum við tryggt að Ísland verði áfram öflug, sjálfbær og framsækin þjóð í síbreytilegum heimi. Þannig tryggjum við að velferð og sjálfstæði verði hornsteinar íslensks samfélags um ókomin ár.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og oddviti Framsóknar í Reykjavík suður.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2024.