Categories
Fréttir Greinar

Elsku Ísland: Framtíðin felst í sjálfstæðinu

Deila grein

21/11/2024

Elsku Ísland: Framtíðin felst í sjálfstæðinu

Ísland stend­ur frammi fyr­ir mikl­um tæki­fær­um á kom­andi ára­tug­um. Að tryggja sjálf­bæra þróun lands­ins, bæði efna­hags­lega og sam­fé­lags­lega, krefst skýrr­ar stefnu­mörk­un­ar sem bygg­ist á verðmæta­sköp­un, nýt­ingu land­fræðilegr­ar legu lands­ins og að sjálf­stæði þjóðar­inn­ar verði tryggt ásamt áfram­hald­andi yf­ir­ráðum yfir auðlind­um þjóðar­inn­ar.

Verðmæta­sköp­un und­ir­staða vel­ferðar

Efna­hags­leg vel­gengni Íslands hef­ur ávallt byggst á verðmæta­sköp­un, sem í sögu­legu sam­hengi hef­ur verið drif­in áfram af sjáv­ar­út­vegi, iðnaði, land­búnaði og orku­fram­leiðslu. Seinna meir hafa ferðaþjón­usta, þekk­ing­ar­grein­ar og skap­andi grein­ar sótt fram og skapað ný verðmæti. Stoðum ís­lenska hag­kerf­is­ins hef­ur fjölgað veru­lega síðustu miss­eri og því hef­ur lands­fram­leiðslan vaxið og gjald­miðill­inn verið nokkuð stöðugur. Smæð hag­kerf­is­ins ger­ir það að verk­um að við fram­leiðum ekki alla hluti. Af þeim sök­um þarf Ísland að reiða sig á út­flutn­ings­grein­ar og frjáls alþjóðaviðskipti. Af þeim ástæðum má bú­ast við því að sveifl­ur verði meiri hér en hjá stærri ríkj­um og verðum við að búa við það. Það er því mik­il­vægt að skuld­ir hins op­in­bera séu minni en al­gengt er í ná­granna­ríkj­un­um og gjald­eyr­is­forði meiri. Á síðasta ára­tug hef­ur þjóðin náð að snúa viðskipta­jöfnuði og er­lendri skulda­stöðu við út­lönd í já­kvæða stöðu. Hér hef­ur hag­vöxt­ur verið um­tals­vert meiri en í ná­granna­ríkj­un­um, sem hef­ur skilað sér til hag­sæld­ar fyr­ir al­menn­ing.

Nýt­um tæki­fær­in í land­fræðilegri legu okk­ar

Það fel­ast bæði tæki­færi og áskor­an­ir í land­fræðilegri legu okk­ar. Ísland gegndi lyk­il­hlut­verki í viðskipt­um á milli Græn­lands og ná­granna okk­ar á þjóðveld­is­tím­an­um. Á þess­um tíma má leiða lík­ur að því að á Íslandi hafi ríkt vel­meg­un og bera merk­ar bók­mennt­ir þjóðar­inn­ar klár­lega þess vitni. Um miðbik síðustu ald­ar hafði lega lands­ins af­ger­andi áhrif í átök­um stór­veld­anna og tengd­ist Ísland með mikl­um hraða í at­b­urðarás heims­mála og þessi teng­ing markaði af­drifa­rík spor á at­vinnu- og menn­ing­ar­líf þjóðar­inn­ar. Með því að nýta þessa staðsetn­ingu mark­visst get­ur Ísland vaxið og orðið miðstöð sam­göngu­flutn­inga, gagna­vera og skap­andi greina. Flug- og hafn­ar­mann­virki lands­ins eru lyk­ill­inn að þess­ari þróun og bein­tengja okk­ur við markaði og menn­ingu beggja vegna Atlantsála. Með því að fjár­festa í sam­göngu­innviðum þjóðar­inn­ar get­ur Ísland orðið frek­ari sam­göngumiðstöð út frá land­fræðilegri legu sinni. Mik­il­vægi norður­slóða er að aukast vegna lofts­lags­breyt­inga og því eru að opn­ast nýj­ar sigl­inga­leiðir sem gætu sett Ísland í lyk­il­stöðu fyr­ir norður­slóðaviðskipti. Sta­f­rænn heim­ur skap­ar einnig mögu­leika. Ísland býr yfir kaldri veðráttu og um­hverf­i­s­vænni orku, sem ger­ir landið að kjör­lendi fyr­ir gagna­ver. Með því að styrkja net­innviði okk­ar og efla alþjóðlega sam­vinnu um gagna­teng­ing­ar get­ur Ísland orðið miðstöð fyr­ir sta­f­ræna þjón­ustu í framtíðinni.

Tryggj­um áfram­hald­andi sjálf­stæði þjóðar­inn­ar

Full­veld­is- og sjálf­stæðis­saga Íslands ein­kenn­ist af fram­förum og lífs­kjara­sókn. Sjálf­stæð nýt­ing auðlinda okk­ar er grund­völl­ur­inn fyr­ir áfram­hald­andi vexti þjóðar­inn­ar. Mik­il­vægt er að tryggja áfram­hald­andi sjálf­stæði Íslands á sviði orku­mála, sjáv­ar­út­vegs og annarra nátt­úru­auðlinda. Í sjáv­ar­út­vegi er það for­senda sjálf­bærni að nýt­ing sé byggð á vís­inda­leg­um rann­sókn­um og að arður­inn nýt­ist sam­fé­lag­inu sem heild. Á sama hátt þarf að stýra orku­fram­leiðslu þannig að hún tryggi hag­kvæmni og um­hverf­is­vernd í senn. Reglu­verk í þess­um efn­um má ekki verða til þess að ákvörðun­ar­ferli í mála­flokkn­um verði svo þungt að það fari að bitna á tæki­fær­um lands­ins til frek­ari sókn­ar. Að sama skapi þarf að tryggja að Lands­virkj­un verði áfram að fullu í op­in­berri eigu. Hug­mynd­ir sem reglu­lega hef­ur verið fleygt fram af hægri væng stjórn­mál­anna um að selja hlut í fyr­ir­tæk­inu eru til þess falln­ar að raska hinni breiðu sam­fé­lags­legu sátt um eign­ar­hald í fyr­ir­tæk­inu.

ESB-aðild styður ekki ís­lenska hags­muni

Hag­sæld fæst ekki með um­fangs­mik­illi skatt­lagn­ingu eða með því að fela stjórn mála í hend­ur annarra. Enn verra er að blanda þessu tvennu sam­an. Sam­kvæmt gögn­um frá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum hef­ur hag­vöxt­ur hér verið meira en helm­ingi hærri frá alda­mót­um en á evru­svæðinu. At­vinnu­leysi hef­ur jafn­framt verið hér helm­ingi minna og at­vinnu­tekj­ur að meðaltali einna hæst­ar inn­an evr­ópska efna­hags­svæðis­ins. Verðbólga hef­ur að vísu verið hér helm­ingi hærri, en bú­ast má við því að verðlag og vext­ir verði hér hærri, jafn­vel í myntsam­starfi, vegna smæðar hag­kerf­is­ins. Í Evr­ópu­sam­band­inu yrði Ísland einn hæsti nettógreiðand­inn í sam­eig­in­lega sjóði og í myntsam­starfi gæti Ísland verið að taka á sig ábyrgð á skuld­bind­ing­um þjóða sem ekki hafa verið jafn ráðdeild­ar­sam­ar og Ísland í söfn­un sam­eig­in­legra sjóða og skulda hins op­in­bera. Í vik­unni birti Evr­ópski seðlabank­inn ein­mitt ár­legt yf­ir­lit um fjár­mála­stöðug­leika þar sem varað var við fjár­laga­halla og háum skulda­hlut­föll­um inn­an svæðis­ins í sam­hengi við nei­kvæða þróun hag­vaxt­ar og framtíðar­horf­um í ljósi stefnu­mót­un­ar á þessu sviði. Bank­inn gaf jafn­framt til kynna að ef ekki yrði stefnu­breyt­ing væru horf­ur á skuldakreppu hjá ein­stök­um ríkj­um. Evr­ópu­sam­bandið stend­ur í leit­inni að hag­vexti, á meðan því hef­ur ekki verið til að dreifa á Íslandi. Við eig­um að halda áfram því góða sam­starfi sem við eig­um við Evr­ópu­sam­bandið á grund­velli EES-samn­ings­ins en ekki fara að leggja ís­lenska stjórn­kerfið und­ir í margra ára aðlög­un­ar­viðræður við ESB vit­andi að aðild þjón­ar ekki ís­lensk­um hags­mun­um. Okk­ur farn­ast best með því að stjórna okk­ur sjálf.

Framtíð Íslands er björt

Framtíð Íslands bygg­ist á því hvernig við nýt­um auðlind­ir okk­ar, land­fræðilega stöðu og mannauð. Með skýrri stefnu sem trygg­ir verðmæta­sköp­un, nýt­ingu land­fræðilegra tæki­færa og vernd­un sjálf­stæðis og auðlinda get­um við tryggt að Ísland verði áfram öfl­ug, sjálf­bær og fram­sæk­in þjóð í sí­breyti­leg­um heimi. Þannig tryggj­um við að vel­ferð og sjálf­stæði verði horn­stein­ar ís­lensks sam­fé­lags um ókom­in ár.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og odd­viti Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2024.