Categories
Fréttir

Endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi

Deila grein

06/03/2019

Endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi

„Virðulegi forseti. Mikil áhersla ríkisstjórnarinnar á málefni barna er farin að birtast með ýmsu móti, m.a. með nýlegri samþykkt um aukna þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda og að allar stærri ákvarðanir og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
 Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 6. mars 2019.

„Nú er unnið að stefnumótun í málefnum barna á vegum félagsmálaráðuneytisins undir forystu þverpólitískrar nefndar þingmanna sem starfa með fagfólki og notendum kerfisins. Vinnan gengur út á endurskoðun barnaverndarlaga og endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi með áherslu á snemmtæka íhlutun og samvinnu kerfa eins og skóla, heilsugæslu, félagsþjónustu, lögreglu, dómskerfis og almannaheillafélaga, svo eitthvað sé nefnt. Nefndin hefur nú þegar fundað níu sinnum og samhliða vinna opnir hópar sem í starfar fólk með þekkingu og reynslu af málefnum barna. Markmiðið er að fá sem flesta að borðinu til að reyna að ná heildarsýn í því hvernig eigi að stuðla að velferð barna á Íslandi og tryggja að þau og fjölskyldur þeirra fái stuðning og þjónustu við hæfi á hverjum tíma. Hliðarhóparnir munu svo á næstu vikum og mánuðum skila tillögum til þingmannanefndarinnar. Þá eru fyrirhugaðir opnir fundir á síðari stigum vinnunnar og áætlað er að halda stærri ráðstefnu á vormánuðum. Einnig hefur tekið til starfa stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga til að samhæfa betur starfið og tryggja framgang þeirra ákvarðana sem teknar verða.
Nýlega sendi félags- og barnamálaráðherra út bréf til fjölda fólks til að kynna verkefnið og hvetja þá sem vilja leggja sitt af mörkum til vinnunnar að kynna sér málið og nýta sér tækifærin til að koma sjónarmiðum á framfæri, hvort sem er í vinnuhópum, með ábendingum til nefndarinnar eða á opnum fundum.“