Categories
Fréttir

Fagna áformum um fjölgun lögreglumanna

Deila grein

06/03/2019

Fagna áformum um fjölgun lögreglumanna

„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að koma málefnum lögreglunnar á dagskrá í þinginu og hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að vera til svara. Eins og fram hefur komið gegnir lögreglan lykilhlutverki í öryggis- og viðbragðskerfi samfélagsins. Lögreglan er ein af grunnstoðum ríkisins og því fagna ég áformum um framlagningu og innleiðingu löggæsluáætlunar sem hæstv. ráðherra minntist á í ræðu sinni,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í ræðu, í sérstakri umræðu um málefni lögreglunnar, á Alþingi í gær.
Ræða Þórunnar Egilsdóttur, alþingismanns, á Alþingi.

„Skilgreining á öryggis- og þjónustustigi er mikilvæg til að átta sig á eðli og umfangi lögreglustarfsins og öll áform um gagnsæi á kostnaðarliðum eru af hinu góða en verkefnin eru fjölbreytt og miskostnaðarsöm.
Einn kostnaðarliður er rekstur bíla, en ég veit til þess að unnið er að endurskipulagningu í bílamálum. Það er afar mikilvægt og í raun stóra málið að því er mér er sagt. Finni menn leiðir til að ná kostnaði niður getur svigrúm til sýnilegrar löggæslu aukist verulega.
Allt kunnáttufólk á sviði löggæslu sem ég hef rætt við leggur áherslu á mikilvægi sýnilegrar öryggisgæslu. Auðvelt er að benda á átak á norðvestursvæði sem fólst í aukinni umferðargæslu og sýnileika. Það skilaði sér í 26% fækkun umferðarslysa. Sýnileikinn þarf ekki eingöngu að vera á stofnvegum heldur líka inni í hverfum, í þéttbýli, á ferðamannastöðum, á hálendinu og í miðbæ Reykjavíkur. Það er mikilvægt að lögreglumaðurinn þekki hverfið sitt, fólkið sitt og svæðið sem hann sinnir. Til að þetta gangi eftir vantar aukið fjármagn og fleira fólk. Því fagna ég öllum áformum um fjölgun lögreglumanna.
Hæstv. forseti. Fyrirkomulagi lögreglunáms hefur verið breytt og enn er eitthvað í að við sjáum hvernig það kemur út. En nú eru kynjahlutföll í fyrsta skipti jöfn í skólanum og spennandi verður að sjá hvort og þá hverju það breytir. En um allt land erum við svo heppin að hafa gott fólk sem er að gera sitt besta og kannski má segja að fólk sé að vinna kraftaverk oft og tíðum undir afar miklu álagi.“