Categories
Fréttir

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á“

Deila grein

07/03/2019

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á“

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á. Ef við stefnum að því að eiga framúrskarandi vísindamenn, listamenn, frumkvöðla, blaðamenn, múrara, íþróttafólk, viðskiptafræðinga, stjórnmálafræðinga eða stýrimenn þurfum við að eiga góða kennara. Fagmennska kennaranna – elja, trú og ástríða er það sem stuðlar að framförum fyrir okkur öll,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í grein í Morgunblaðinu 6. mars.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í vikunni fyrstu aðgerðirnar sem ráðist verður í til þess að mæta þessum áskorunum. Launað starfsnám mun, frá og með næsta hausti, standa nemendum til boða sem eru á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi. Þá geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi einnig sótt um námsstyrki, frá og með næsta hausti. Í þriðja og síðasta lagi styrki til starfandi kennara vegna náms í starfstengdri leiðsögn.
„Ef ekkert er að gert blasir grafalvarleg staða við okkur. Ef miðað er við óhagstæðustu sviðsmynd mannfjöldaþróunar og óbreyttan fjölda útskrifaðra grunnskólakennara gera spár okkar ráð fyrir að manna þurfi tæplega 1.200 kennarastöður í grunnskólum með starfsfólki án kennsluréttinda eftir fjögur ár, 2023. Þá yrði hlutfall starfsfólks starfandi við kennslu án kennsluréttinda 23% en samsvarandi hlutfall var 8,6% árið 2017. Ljóst er að þegar vantar leikskólakennara í um 1.800 stöðugildi til þess að uppfylla ákvæði laga um hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara.“
„Stjórnvöld leggja ríka áherslu á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega kveðið á um mikilvægi þess stuðla að viðurkenningu á störfum kennara og efla faglegt sjálfstæði þeirra. Einnig er þar áréttað að til að bregðast megi við yfirvofandi skorti á kennurum hér á landi þurfi ríki, sveitarfélög og stéttarfélög að vinna vel saman.“
Grein Lilju Daggar Alfreðsdóttur má lesa í heild sinni hér.