Categories
Fréttir

„Metnaður okkar Íslendinga að berjast fyrir sjálfbærni landsins“

Deila grein

07/03/2019

„Metnaður okkar Íslendinga að berjast fyrir sjálfbærni landsins“

„Virðulegur forseti. Meiri hluti landsmanna er andvígur því að slakað verði á reglum um innflutning á ferskum matvælum, samkvæmt könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið og fjallað er um í blaðinu í dag og á vef þess. Það kemur ekkert sérstaklega á óvart að andstaðan er meiri á landsbyggðinni en á suðvesturhorninu þar sem návígið við framleiðsluna er meira. Bann við innflutningi á hráu kjöti og ferskum matvælum snýst um sérstöðu Íslands til framtíðar. Framtíðarhagsmunir íslensks samfélags eru undir. Þeir hagsmunir eru miklu stærri en hagsmunir einstakra stétta í nútíðinni,“ sagði Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í vikunni.
Ræða Ásgerðar K. Gylfadóttur, varaþingmanns, á Aþingi 5. mars 2019.

„Varðandi viðskiptaþáttinn er íslenskur markaður lítill í alþjóðlegum samanburði og vega því hagsmunir okkar þyngra í heildarsamhenginu. Það ætti að vera metnaður okkar Íslendinga að berjast fyrir sjálfbærni landsins og auknu matvælaöryggi. Það er ekki hræðsluáróður að benda á að heilbrigði búfjárstofna á Íslandi er með því besta sem gerist í heiminum og notkun sýklalyfja í landbúnaði með því minnsta sem þekkist.
Ræktum landið, verndum þá sérstöðu sem við höfum hér í heilbrigði búfjárstofna og leggjum þar inn á loftslagsreikninginn sem framtíðarkynslóðir kalla eftir að við sinnum betur en nú er gert.“