Categories
Fréttir

Er salan á Arion banka til þess fallinn að auka traust?

Deila grein

22/03/2017

Er salan á Arion banka til þess fallinn að auka traust?

„Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir því að eiga orðastað við hv. þm. Theodóru S. Þorsteinsdóttur og þakka henni fyrir að verða við þeirri ósk. Það þarf vart að fara mörgum orðum um að erlendir fjárfestar, svokallaðir vogunarsjóðir, hafa nú náð yfirhöndinni í því sem kallað hefur verið kerfislega mikilvæg fjármálastofnun á Íslandi, þ.e. Arion banka. Ég hygg að hv. þingmaður sé mér ekki mjög ósammála þegar ég fullyrði að traust almennings á fjármálastofnunum hafi nánast þurrkast út við bankahrunið haustið 2008. Síðan þá hafa landsmenn verið nokkuð tortryggnir á bankana og fjármálakerfið og það sennilega með réttu. Svokallaðar traustmælingar sýna þetta svart á hvítu. Fyrir rúmu ári birtust fréttir af því að um 6,5% landsmanna bæru mikið traust til bankakerfisins. Rúmlega 70% sögðust bera lítið traust til bankakerfisins. Í sambærilegum mælingum fyrir Alþingi hefur komið fram að lítill hluti landsmanna telur að Alþingi standi vörð um hagsmuni almennings.
Hæstv. forseti. Það er einmitt við þessar aðstæður sem kerfislega mikilvæg fjármálastofnun er seld í hendur á erlendum vogunarsjóðum. Það er væntanlega kalt mat forsætisráðherra að þetta séu sannarlega góðar fréttir og frændi hans Benedikt fjármálaráðherra er sáttur. Segja má að vogunarsjóðirnir eigi þarna sannarlega hauka í horni. Þess má geta að í hópi vogunarsjóðanna er einn sem staðinn hefur verið að stórfelldum mútugreiðslum í Afríku og þurft að gjalda fyrir það með gríðarlega háum sektum.
Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur þingmaðurinn að sala á kerfislega mikilvægum fjármálastofnunum í hendur erlendra vogunarsjóða sé til þess fallin að auka traust almennings á fjármálakerfinu? Finnst hv. þingmanni það siðferðilega verjandi að fjárfestir sem staðinn hefur verið að sviksamlegum og glæpsamlegum vinnubrögðum skuli vera orðinn einn af eigendum Arion banka? Er hv. þingmaður sammála þeirri skoðun forsætisráðherra að kaupin séu sannarlega góðar fréttir?“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 21. mars 2017.