Categories
Fréttir

Hefði önnur mynt en krónan komið sér betur eftir hrun?

Deila grein

22/03/2017

Hefði önnur mynt en krónan komið sér betur eftir hrun?

„Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir að eiga orðastað við hv. þm. Pawel Bartoszek og hann varð við þeirri beiðni minni. Ég vil þakka honum fyrir það. Í dag er starfandi peningastefnunefnd en hún starfar samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands. Nefndin tekur ákvörðun um vexti og önnur stýritæki peningastefnunnar a.m.k. átta sinnum á ári. Gjaldmiðill Íslands er íslenska krónan og peningastefnunefnd starfar samkvæmt því.
Á dögunum var skipuð þriggja manna verkefnisstjórn í tengslum við endurmat peningastefnunefndar. Ekki verður annað séð en að vinna hennar eigi að grundvallast á því að krónan verði framtíðargjaldmiðillinn á Íslandi. Því kom mér það verulega á óvart að heyra hæstv. fjármálaráðherra fullyrða í viðtali um helgina að íslenska krónan væri ekki heppilegur gjaldmiðill fyrir þjóðina og ynni að mörgu leyti gegn hagsmunum helstu atvinnugreina og heimila landsins. Hann sagði til að mynda orðrétt í þættinum Víglínunni, með leyfi forseta:
„Það eru margir sem hafa sagt: Ja, krónan lagar sig svo vel að okkur. En hún gerir það bara alls ekkert alltaf. Núna t.d. lagar hún sig svo sannarlega ekki að þörfum sjávarútvegsins og lagar sig ekkert sérstaklega vel einu sinni að þörfum ferðaþjónustunnar.“
Að því sögðu langar mig að heyra sjónarmið hv. þm. Pawels Bartoszeks á þau orð hæstv. fjármálaráðherra og samflokksmanns þingmannsins. Er þingmaðurinn sammála því að krónan sé ekki framtíðargjaldmiðill Íslands? Ef svo er, þyrfti þá ekki að breyta starfslýsingu verkefnisstjórnar í tengslum við endurmat á peningastefnunni? Hvaða gjaldmiðill telur þingmaðurinn að sé ákjósanlegur fyrir Ísland til framtíðar? Og að lokum: Er það mat þingmannsins að önnur mynt en krónan hefði verið heppilegri til að ná fótfestu aftur eftir bankahrunið 2008?“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 21. mars 2017.