Categories
Greinar

Traust, siðferði og leyndarhyggja

Deila grein

21/03/2017

Traust, siðferði og leyndarhyggja

Það þarf vart að fara mörgum orðum um það að erlendir fjárfestar, svo kallaðir vogunarsjóðir, hafa nú náð yfirhöndinni í því kerfislega mikilvægri fjármálastofnun á Íslandi; það er Arion banka. Eitt af því sem nefnt hefur verið sem vandamál við að vogunarsjóðir séu kjölfestufjárfestar í bönkum, er að þeir eru kvikir fjárfestar. Það þýðir að þeir leita tækifæra frá einum degi til annars; eru ekki langtímafjárfestar.

Engar upplýsingar, lokaði almenningi
Gylfi Magnússon, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, segir á Vísindavefnum um vogunarsjóði að: „Yfirleitt eru vogunarsjóðir lokaðir almenningi, það er einungis tilteknum fjárfestum er gefinn kostur á að kaupa sig inn í þá. Ein skýring á því er að nokkuð ríkar kröfur eru gerðar um upplýsingagjöf til sjóða sem seldir eru almenningi og það hentar vogunarsjóðum illa, enda vilja þeir halda spilunum þétt að sér.“ Fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingarbanka, Pétur Einarsson, tekur í sama streng í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að vogunarsjóðir séu í eðli sínu lokaður klúbbur og ekki eftirlitsskyldir eins og bankar. Þeirra eignarhald og starfsemi sé ekki opinber. Þá telur hann einnig vogunarsjóði óheppilega eigendur banka. Þeir séu ekki langtímafjárfestar og hafi ekki áhuga á rekstri.
Það má því með nokkurri vissu fullyrða að leyndarhyggja sé eitt leiðarstefið í starfsemi vogunarsjóða.

Traustið við frostmark
Traust á fjármálastofnunum er í lágmarki og hefur svo verið allt frá því að bankarnir hrundu haustið 2008. Mælingar hafa staðfest það. Fyrir rúmu ári birtust fréttir af því að um sex og hálft prósent landsmanna bera mikið traust til bankakerfisins. Rúmlega 70% sögðust bera lítið traust til þess. Það eru sem sagt sjóðir sem sveipaðir eru leyndarhyggju sem er falin umsjá á kerfislega mikilvægum banka á Íslandi, á tímum þegar traust á bankakerfinu er við frostmark. Forsætisráðherra segir að þetta séu sannarlega góðar fréttir og fjármálaráðherrann er sáttur; segja má að vogunarsjóðirnir eigi þarna hauka tvo í horni. Og það þrátt fyrir það að í hópi vogunarsjóða sé einn sem staðinn hefur verið að stórfelldum mútugreiðslum í Afríku og þurft að gjalda fyrir það með gríðar háum sektum.

Langtímafjárfestar …?
Einhverra hluta vegna telur forsætisráðherra það sýna traust á aðstæðum hér á landi, ef: „…hingað vilja koma öflugir erlendir aðilar sem eru tilbúnir að gerast langtímafjárfestar í íslenskum fjármálafyrirtækjum.“ Það er athyglivert að forsætisráðherra telji að vogunarsjóðir séu langtímafjárfestar. Hingað til hafa vogunarsjóðir ekki verið taldir tilheyra þeim hópi. Einn af forystumönnum þeirra vogunarsjóða sem var að festa sér Arion banka segir í samtali við Morgunblaðið: „Ég veit ekki hve lengi við höldum þessu [fjárfestingunni í Arion banka]. Það fer eftir því hvað markaðurinn er lengi að meðtaka virði og horfur bankans,…“.

Traust og siðferði
Tvennt er það sem veldur mér sérstöku hugarangri vegna sölu á ráðandi hlut í Arion banka. Fyrst ber að nefna að salan er í mínum huga langt frá því að stuðla að endurnýjuðu trausti á fjármálakerfinu í hugum íslensks almennings; það er, viðskiptavina bankanna. Í annan stað finnst mér það vægast sagt merki um daufa siðferðiskennd að sjóður sem staðinn hefur verið að glæpsamlegri starfsemi skuli boðinn hingað sérstaklega velkominn; og það bæði af forsætisráðherra og efnahags- og fjármálaráðherra. Sérstaklega kemur forsætisráðherra mér á óvart með sínum málflutningi, fjármálaráðherrann þekki ég mun síður.

Sigurður Ingi Jóhannsson