Categories
Fréttir

Er það stefna þessara banka að fara í aðra útrás?

Deila grein

25/02/2016

Er það stefna þessara banka að fara í aðra útrás?

frosti_SRGB„Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að vekja athygli á fréttum undanfarna daga um fjárfestingar íslenskra banka og lífeyrissjóða erlendis í norskum skipaiðnaði og norskum olíuiðnaði, í Fáfni og Havila. Ég verð að lýsa yfir áhyggjum vegna þessarar stefnu eða þessarar útrásar íslenskra banka sem hafa verið reknir og settir aftur á stofn með stuðningi ríkissjóðs og eru núna reknir með beinni eða óbeinni ábyrgð ríkissjóðs, að það sé stefna þessara banka að fara í aðra útrás, að fjárfesta erlendis meðal annars. Meðan við erum í höftum, öll þjóðin, hafa bankarnir verið að fjárfesta fyrir marga milljarða erlendis og ekki dreift áhættu sinni heldur þjappað henni saman inn í einhvern geira sem við höfum ekkert mikið vit á, norskan olíuiðnað. Hvers vegna þurfa framkvæmdamenn í norskum olíuiðnaði að leita til Íslands eftir fjármagni? Er ekki eitthvað að? Eru ekki vextirnir lægri í Noregi? Það er verið að taka áhættu, það er eitthvað í ólagi og það er eitthvað mikið í ólagi þegar íslenskir lífeyrissjóðir í stórum stíl, í staðinn fyrir að dreifa áhættunni, þjappa henni saman inn í þennan geira sem þeir hafa örugglega ekkert vit á.
Ég vil eiginlega kalla eftir því að gerður verði sem fyrst nýr samningur við Íslandsbanka, sem er nú alfarið orðinn ríkisbanki, og honum verði sett eigendastefna sem takmarki mjög möguleika bankans til að fara í útrás til útlanda. Ég vil líka að íslenskir lífeyrissjóðir komi fram og lýsi því hver stefna þeirra er varðandi fjárfestingar í útlöndum.“
Frosti Sigurjónsson  í störfum þingsins 24. febrúar 2016.
f