Categories
Fréttir

Flugfarmiðar hafa hækkað og komið þar með í veg fyrir meiri lækkun á vísitölu

Deila grein

25/02/2016

Flugfarmiðar hafa hækkað og komið þar með í veg fyrir meiri lækkun á vísitölu

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Geta skal þess sem vel er gert. Fram kemur í frétt frá ASÍ að vörukarfa ASÍ hefur lækkað í sjö verslunum frá tímabilinu september 2015 þar til nú í febrúar. Hún hefur reyndar lækkað misjafnlega mikið, mest hjá Hagkaupum, minna hjá öðrum samkeppnisaðilum.
Það er góður áfangi, en betur má ef duga skal vegna þess að mesta lækkunin á tímabilinu er 3,8% en íslenska krónan hefur styrkst um 8% síðustu 12 mánuði gagnvart helstu viðskiptamyntum. Það er samt vel af sér vikið vegna þess að það gerist þrátt fyrir vaxtastigið í landinu, sem er í boði Seðlabankans eins og allir vita. En það breytir ekki því að afkoma þessara verslunarfyrirtækja er gríðarlega góð og hún hefur batnað með hverju ári og einnig í fyrra.
En það leiðir hugann að því að það lækka ekki allar vörur og öll þjónusta á Íslandi þrátt fyrir ærin tilefni. Olíufatið er núna í 31–32 dollurum og hefur sjaldan verið lægra. Það er orðinn drjúgur tími síðan olíufélögin í landinu lækkuðu verð sitt. Þau hafa hins vegar beitt tilviljanakenndum afslætti þrátt fyrir að engin sé Eurovision og ekkert sé fótboltamótið. En það breytir ekki því að ég tel að það sé tilefni til þess nú strax að lækka olíu- og bensínverð á Íslandi.
Ég vil geta um eitt í viðbót, herra forseti. Það er að í síðustu verðbólgumælingu kom fram að flugfarmiðar höfðu hækkað og komið þar með í veg fyrir meiri lækkun á vísitölu en annars hefði orðið. En olíukostnaður Icelandair á síðasta starfsári lækkaði um 5,6 milljarða kr. Þeir eru með methagnað upp á 14 milljarða, (Forseti hringir.) og farmiðarnir hækka. Þarna er eitthvað að sem þarf að laga.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 24. febrúar 2016.