Þegar evran var tekin í notkun árið 1999 voru vonirnar miklar og sögulegar. Sameiginlegi gjaldmiðillinn átti að binda álfuna nánar saman, stuðla að öflugum hagvexti með aukinni efnahagslegri samþættingu. Röksemdirnar fyrir evrunni byggðust á tveimur meginstoðum. Í fyrsta lagi að efnahagsleg samþætting myndi auka hagvöxt með því að fjarlægja efnahagslegar hindranir. Í öðru lagi að fjármagnskostnaður myndi minnka vegna stærri gjaldmiðils. Vandinn er að forsendurnar voru veikar í upphafi. Hinn sameiginlegi markaður hafði þegar tryggt hið svokallaða fjórfrelsi, þ.e. frjálsa för vöru, þjónustu, fjármagns og vinnuafls innan innri markaðar EES. Gjaldmiðlamunur var vissulega óþægilegur, sérstaklega fyrir ferðamenn, en í dag er það lítil efnahagsleg hindrun á tímum rafræns fjármagns.
Fjármagnskostnaður þjóðríkja endurspeglast iðulega í því vaxtaálagi sem ríkissjóðir þeirra bera, sem gefur svo mynd af grunnþáttum viðkomandi hagkerfis. Vextir á grískum ríkisskuldabréfum urðu 22,5% árið 2012 og á tímabili gátu mörg evruríki ekki gefið út ríkisskuldabréf. Á sama tíma voru vextir á þýskum ríkisskuldabréfum um 1%. Evran hefur til að mynda ekki endurspeglað sterka efnahagslega stöðu Þýskalands undanfarin misseri. Þýskaland hefur haft gjaldmiðil sem er veikari en efni standa til, sem hefur svo bætt samkeppnisstöðu landsins, en á sama tíma hefur Grikkland haft mun sterkari gjaldmiðil en hagkerfið þolir, sem hefur veikt verulega samkeppnisstöðu landsins, og aðlögunin hefur komið í gegnum vinnumarkaðinn.
Atvinnuleysi ungs fólks í Grikklandi náði allt að 50%, þegar verst lét. Vinnumálaráðherra Grikklands, Niki Kerameus, fer nú um alla Evrópu til að hvetja vel menntaða brottflutta Grikki til að snúa aftur til landsins með skattalegum hvötum. Um 600 þúsund vel menntaðir Grikkir yfirgáfu landið í efnahagsþrengingum þeirra. Sumir myndu segja að þarna væri hinn sameiginlegi markaður að virka. Það er rétt, en herkostnaðurinn fyrir margar kynslóðir er ómetanlegur vegna spekilekans sem á sér stað.
Vöxtur landsframleiðslu í Evrópu er mun minni en í Bandaríkjunum. Samkvæmt Draghi-skýrslunni hefur munurinn á framleiðslu svæðanna aukist enn frekar eftir að evran var tekin upp. Árið 2002 var framleiðsla Bandaríkjanna 17% meiri en á evrusvæðinu, en árið 2023 var munurinn orðinn 31% og hefur því aukist um 82% á tímabilinu! Evran átti að vera svar Evrópu við Bandaríkjunum. Eitt öflugt markaðssvæði með eina rödd, einn markað og eina mynt. Hugmyndasmiðir evrunnar reru þó á ókunn mið. Niðurstaðan er skýr: Evran hefur ekki staðið undir væntingum um aukinn hagvöxt og velsæld.
Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. ágúst 2025.