Enn á ný er umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu komin á dagskrá. Það er eins og yfirráð Íslands yfir eigin auðlindum sé ekkert tiltökumál og bara einhver skemmtilegur jólapakki.
Auðlindir í eigu þjóðar
Við eigum miklu frekar að tryggja eign þjóðarinnar á auðlindum hafsins, orkunni í iðrum jarðar, vindorkunni, fjörðunum og heilnæmu vatni og nýta allt þetta til innlendrar verðmætasköpunar. Innganga í ESB gengur þvert gegn þessu markmiði. Við viljum hvorki selja Landsvirkjun eða selja raforku úr landi, getum við ekki öll verið sammála um það?
Við viljum að vindmyllur framtíðar séu í eigu þjóðarinnar og nýtist til orkuskipta og verðmætasköpunar. Við viljum setja skorður við uppkaup erlendra aðila á verðmætu landi.
Orku- og fæðuöryggi
Við sem þjóð megum ekki lenda í þeirri stöðu að ekki sé til næg orka fyrir heimili og fyrirtæki í landinu, það þurfum við að tryggja. Við þurfum einnig að tryggja að matvælaframleiðsla sé í landinu og að hún sé á forsendum heilnæmis og sjálfbærni.
Heimsfaraldur og stríð í Evrópu hafa sýnt okkur hversu fallvalt þetta öryggi er og það er mun meiri akkur fyrir íslenska þjóð að tryggja eigið öryggi en að taka áhættu á að aðrar þjóðir styðji okkur ekki þegar til kastanna kemur, eins og gerðist í bankahruninu, þegar lönd Evrópu snerust gegn okkur.
Töpuð vinna og tækifæri
Með inngöngu í ESB opnast fyrir frjálst kaupæði stórra auðhringja í íslensku samfélagi sem verður til þess að arður fyrirtækja fer úr landi, miðlæg atvinna, yfirstjórn og bakvinnsla færist erlendis og verður þannig til þess að atvinnuleysi eykst og laun lækka.
Látum ekki blekkjast
Umsókn er ekki aðildarviðræður heldur aðlögun og er ekki sú framtíðarsýn sem við í Framsókn höfum. Við viljum vera sjálfstæð þjóð með yfirráð yfir eigin auðlindum og við ætlum að tryggja að svo verði.
Okkar krafa komi til ríkisstjórnarviðræðna er að Ísland verði ekki fært Evrópusambandinu í jólagjöf.
Við ætlum að tryggja að Ísland verði jólagjöfin hvert einasta ár til afkomenda okkar.
Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyst á visir.is 18. nóvember 2024.