Categories
Fréttir

Falleinkunn í tollframkvæmd landbúnaðarafurða

Deila grein

24/02/2022

Falleinkunn í tollframkvæmd landbúnaðarafurða

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni falleinkunn þá er kemur fram í skýrslu um úttekt á tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða í störfum þingsins á Alþingi. Ríkisendurskoðandi birti skýrslu þessa í vikunni.

Alvarlegar athugasemdir við tollframkvæmdinni eru endurtekið efni frá því fyrir níu árum. „Þetta sætir furðu,“ sagði Halla Signý. „Margir af þeim annmörkum sem komu fram þá eiga enn við í dag. Þrátt fyrir gríðarlega aukningu síðustu ára á innflutningi landbúnaðarvara, sérstaklega mjólkurafurða, hefur mikilvægi eftirlits ekki aukist að sama skapi, því miður.“

„Það sætir furðu að þrátt fyrir að tollframkvæmd á innfluttum vörum hafi verið þó nokkuð í kastljósinu undanfarin misseri virðist sem ekkert hafi verið reynt til að bæta úr né að gera hana skilvirkari. Úttektin staðfestir það sem haldið hefur verið fram, að allnokkurt misræmi er á útflutningstölum Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í tilviki ákveðinna landbúnaðarvara,“ sagði Halla Signý.

„Nú vinnum við eftir alþjóðlegu flokkunarkerfi yfir flytjanlegar vörur sem samið er af tollsamvinnuráði í Brussel. Því ætti samræming tolleftirlits ekki að vera nein stjarneðlisfræði. Þrátt fyrir það virðist ekki vera hægt að tolla rétt vörur hér á landi,“ sagði Halla Signý.

Tollurinn flokkar vörur í samræmi við upplýsingar frá innflytjendum og virðist treysta þeim upplýsingum í blindni í stað þess að bera þær saman við skráð flokkanúmer frá útflytjanda.

„Það er athyglisvert að þarna eru íslenskir innflytjendur frjálsir að flokka sínar vörur að vild og þegar maður horfir á misræmið er ekki laust við að maður haldi að þarna sé um einbeittan brotavilja að ræða,“ sagði Halla Signý.

„Það er nauðsynlegt að Skatturinn sem sér um tollframkvæmd sé í betri samvinnu við aðra tollstofnarnir erlendis. Þangað til úr því verður bætt mun áfram eiga sér stað ósanngjarnir viðskiptahættir hér á landi og fjárhagslegt tap fyrir ríkissjóð,“ sagði Halla Signý að lokum.