Categories
Fréttir

Innrás í frjálst og fullvalda ríki hefur afleiðingar

Deila grein

24/02/2022

Innrás í frjálst og fullvalda ríki hefur afleiðingar

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, sagði í störfum þingsins á Alþingi, að öryggi Íslands byggist á sterkum gagnkvæmum vörnum bandalagsríkja NATO, með sameiginlegum vörnum og samvinnu. En jafnframt á trú okkar á frið, mannréttindum og lýðræði, og að leikreglum alþjóðasamfélagsins séu virtar.

„Frá lýðveldisstofnun hefur velgengni okkar grundvallast á sjálfsákvörðunarrétti okkar til athafna og ákvarðana um eigin örlög. Blessunarlega hefur stríð ekki ógnað okkar tilveru né fullveldi frá seinni heimsstyrjöld,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Innrás í frjálst og fullvalda ríki má aldrei og á aldrei að verða án afleiðinga fyrir þann sem valdi beitir.“

„Við Íslendingar erum fámenn, herlaus þjóð í gjöfulu landi. Það rof sem blasir við í öryggismálum í okkar heimsálfu er grafalvarlegt og kallar á sameiginleg viðbrögð. Staðan kennir okkur einnig mikilvægi þess að landið sé sjálfbært, fæðuöryggi okkar sé tryggt, samningar okkar á alþjóðavettvangi séu virtir og varnir okkar traustar. Það er og verður ávallt siðferðisleg skylda okkar að hvetja til friðsamlegra lausna og standa gegn stríðsátökum sem einna helst bitna á saklausum borgurum,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Ég trúi því að stjórnvöld og Alþingi tali skýrt fyrir þeim gildum sem skilað hafa friði og velsæld í Evrópu í áratugi og að enginn afsláttur verði gefinn þar á,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.