Categories
Fréttir

„Við fordæmum þessar aðgerðir Rússa“

Deila grein

24/02/2022

„Við fordæmum þessar aðgerðir Rússa“

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, sagði á Alþingi í dag:

„Það sem við höfum mörg hver óttast og fylgst með á síðustu dögum og vikum hefur verið að raungerast á síðasta sólarhring. Við hljótum að fordæma harðlega þá framkomu og þær ákvarðanir sem forseti Rússlands og yfirvöld í Rússlandi hafa tekið með því að ráðast inn í frjálst og fullvalda nágrannaríki sitt, lýðræðisríki, og brjóta þar með landamæri og alþjóðleg lög. Við hljótum að skipa okkur í sama lið og allar aðrar lýðræðisþjóðir í heimi, vestrænar þjóðir, bandalagsþjóðir okkar, hvort sem þær eru innan NATO eða innan Evrópu. Ég fagna því og vil reyndar lýsa því yfir, svo að á því sé enginn vafi, að ríkisstjórnin er einhuga í þeirri yfirlýsingu sem forsætisráðherra fór með í upphafi þessarar umræðu. Ég er líka ánægður að heyra að þau skilaboð sem koma frá þinginu eru skýr.

Skilaboð okkar frá Íslandi, frá ríkisstjórn, frá Alþingi, frá þjóðinni eru einfaldlega þessi:

Við fordæmum þessar aðgerðir Rússa og við stöndum með fólkinu í Úkraínu. Hugur okkar hlýtur að vera hjá almenningi þar, þar sem þeirra venjulega, daglega lífi er ógnað. Við munum gera allt sem við getum gert. Við þurfum að axla þá ábyrgð sem við höfum í því varnarbandalagi sem við erum í og í þeirri bandalagsstarfsemi sem þar er til að gagnast í þessu verkefni. Við þurfum líka að reyna að gera það sem við mögulega getum til að hjálpa fólkinu í Úkraínu.

Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg og það er mikilvægt að við sýnum samstöðu frá Íslandi. Ég vona að allur heimurinn geri slíkt hið sama.“