Categories
Fréttir Greinar

Fasteignagjöld í brennidepli – mikilvægt að huga að stöðu íbúanna

Deila grein

13/08/2025

Fasteignagjöld í brennidepli – mikilvægt að huga að stöðu íbúanna

Nýtt fasteignamat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir árið 2026 sýnir að hækkunin á Suðurnesjum er meiri en að meðaltali á landsvísu. Á landsvísu hækkar fasteignamat um 9,2% milli ára, en á Suðurnesjum og Norðurlandi er hækkunin mest.

Í Suðurnesjabæ hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis að meðaltali um 17,2% um næstu áramót og er það ein sú mesta hækkun á landvísu. Þetta er umtalsverð hækkun sem kemur á tíma þegar margir íbúar glíma nú þegar við aukinn kostnað vegna vaxta og verðbólgu. Slík hækkun mun óhjákvæmilega hafa áhrif á fjárhagsstöðu heimilanna, ef ekki er brugðist við í álagningarstuðli fasteignagjaldanna.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur þegar lýst vilja sínum til að bregðast við þessari þróun með því að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda. Nánari útfærsla á lækkuninni verður unnin samhliða við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026. Við í Framsókn, sem eigum fulltrúa í bæjarráði, og munum við að sjálfsögðu fylgja málinu eftir í þeirri vinnu að 17,2% hækkun fari ekki beint ofan á núverandi reiknistuðul fasteignargjalda.

Hækkun fasteignamats mun einnig hafa áhrif á aðra reiknistuðla í sveitarfélaginu, til dæmis gjaldskrá vatnsveitu Sandgerðis sem er í eigu Suðurnesjabæjar, Þar hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans lýst vilja til að selja eignarhlut sveitarfélagsins í vatnsveitunni.

Við í Framsókn teljum slíka sölu ekki skynsamlega og í raun óafturkræfa. Það er mikilvægt að grunninnviðir sveitarfélagsins séu í eigu þess sjálfs, því slíkar eignir eru ekki aðeins fjárhagsleg verðmæti heldur einnig trygging fyrir að samfélagið hafi stjórn á eigin þjónustu og verðlagningu. Ef slíkur eignarhlutur er seldur til einkaaðila, hverfur þessi stjórn og framtíðaráhrif geta orðið íbúum kostnaðarsöm.

Því teljum við að réttara sé að endurskoða reiknistuðul vatnsskattarins til að jafna greiðslubyrði á milli byggðarkjarna í Suðurnesjabæ, Garði og Sandgerði. Með því er hægt að ná sanngjarnari skiptingu án þess að selja mikilvæga innviði.

Slík nálgun er betri kostur en að selja innviði sveitarfélagsins úr sameiginlegri eigu. Það er á ábyrgð okkar kjörinna fulltrúa að verja hagsmuni íbúa, tryggja að þjónusta og innviðir haldist í traustri eigu sveitarfélagsins og kappkosta að halda álögum á íbúa okkar í lágmarki.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 13. ágúst 2025.