Categories
Fréttir

Finnum leið gegn bankabónusum

Deila grein

31/08/2016

Finnum leið gegn bankabónusum

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Í síðustu viku ræddum við nokkrir hv. þingmenn bankabónusa hjá eignarhaldsfyrirtækinu Kaupþingi. Í dag lesum við hins vegar fréttir þess efnis að fjórir starfsmenn gamla Landsbankans geti hver um sig fengið samtals mörg hundruð milljónir í bónusgreiðslur á komandi árum. Manni dettur helst til hugar við lestur þessara frétta orðatiltækið: Mikið vill meira.
Þetta eru ekki góðar fréttir af vinnubrögðum innan þessara eignarhaldsfélaga. Þessar fréttir eða réttara sagt þessar ákvarðanir innan umræddra eignarhaldsfélaga hjálpa okkur ekki að byggja upp traust að nýju í samfélagi okkar. Þessar ákvarðanir ala hins vegar á óánægju og sundrungu í okkar annars ágæta samfélagi. Það getur ekki verið það sem við viljum. Ég verð fyrir gríðarlegum vonbrigðum með að sjá vinnubrögð sem þessi.
Mig langar að biðla til þeirra sem ráða innan umræddra eignarhaldsfélaga að endurskoða ákvarðanir sínar um bónusgreiðslur. Að eignarhaldsfélagið Kaupþing hætti við ákvörðun sína sem fyrirhugað er að samþykkja á fundi félagsins í dag. Mig langar að biðja forsvarsmenn eignarhaldsfélags Landsbankans að endurskoða ákvörðun sína um það bónuskerfi sem samþykkt var á vormánuðum. Ég biðla til þessara félaga að hjálpa okkur að byggja upp traust að nýju, sýna samfélagslega ábyrgð og byggja með okkur betra samfélag. Ef ekki, virðulegur forseti, þá þarf að hugsa aðrar leiðir. Það þarf að skoða frekari skattlagningu á þessi félög í gegnum bankaskattinn, en núverandi ríkisstjórn skattlagði þau með bankaskatti. Þessar fréttir sýna að svigrúm til skattlagningar virðist vera enn meira. Það væri bæði ábyrgt og gott að ganga til þeirra verka.
Ósættið vegna þessara bónusákvarðana má m.a. rekja til þess að eftir hrun fengu nýju bankarnir skuldir heimilanna með miklum afslætti. Bankarnir hafa gengið hart fram í því að innheimta þær að fullu. Á sama tíma hafa bankarnir hagnast um 500 milljarða frá hruni, vaxtagjöldin eru há og þjónustuliðir og þjónustugjöld sem rukkuð er fyrir hafa sjaldan eða aldrei verið hærri.
Hv. þingheimur. Tökum höndum saman og finnum lausn í þessu mikilvægu málum. Samkvæmt fréttum og umræðunni virðist vera þverpólitísk sátt um að finna lausn eða leið. Vinnum saman að því.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 30. ágúst 2016.