Categories
Fréttir

Þetta er allt ógeðslegt

Deila grein

31/08/2016

Þetta er allt ógeðslegt

Karl Garðarsson„Virðulegur forseti. Þær fréttir sem berast af bónusgreiðslum tengdum fjármálakerfinu eru ömurlegar en því miður fyrirsjáanlegar. Fjórir stjórnendur LBI, eignarhaldsfélags utan um eignir gamla Landsbankans, geta fengið samtals mörg hundruð milljónir kr. í bónusgreiðslur hver um sig á komandi árum ef þeir geta aukið virði eigna gamla Landsbankans. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fær 23 millj. kr. í þóknun á ári fyrir að sitja í stjórn LBI, fyrir utan væntanlegar bónusgreiðslur. Þau laun miða við að hann starfi fyrir stjórnina að hámarki 40 daga á ári. Það þýðir að hann fær 575 þús. kr. fyrir hvern dag sem hann starfar fyrir stjórnina, rúma hálfa milljón á dag.
Í DV segir að heildarbónusgreiðslur til þessara fjögurra æðstu stjórnenda félagsins sé litið fram í tímann geti numið milljörðum króna. Ef þetta er ekki nóg þá skýrði DV frá því í síðustu viku að um 20 starfsmenn eignarhaldsfélags Kaupþings, sem tók við hlutverki slitabús Kaupþings, geti tryggt sér 1.500 millj. kr. í bónusgreiðslur ef þeim tekst að hámarka virði þeirra eigna sem eru óseldar.
Rétt er að benda á að stærsta óselda eign Kaupþings er 87% hlutur í Arion banka, viðskiptabanka sem starfar að mestu á íslenskum markaði og var endurreistur af íslenska ríkinu með íslenskum innstæðum.
Við höfum nýjar persónur og leikendur á sviðinu. Tilgangurinn er sá sami, að græða sem mest á sem einfaldastan hátt. Þetta verður að stöðva með öllum ráðum.
Fyrrverandi ritstjórn Morgunblaðsins lét þau orð falla fyrir nokkrum árum að þetta væri ógeðslegt þjóðfélag, „… þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Sagði hann.
Okkur hefur miðað í rétta átt á mörgum sviðum síðan þessi orð féllu, en það er greinilega margt ógert.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 30. ágúst 2016