Categories
Fréttir

Fjárfestum í öryggi fólks og endurkomu inn í samfélagið

Deila grein

08/06/2023

Fjárfestum í öryggi fólks og endurkomu inn í samfélagið

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, nýtti tækifærið á eldhúsdegi á Alþingi til að ræða byltinguna undir formerkinu #metoo, þ.e. kynferðislegt ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynjasamskipti.

„Metoo-byltingin hefur hjálpað okkur að berjast gegn fordómum, ójafnrétti og ofbeldi, skýra og virða mörk auk þess að ítreka mikilvægi þess að skýrt samþykki liggi fyrir. Metoo boðaði breytingar til hins betra. Í henni fólust róttækar og nauðsynlegar umbætur hvað varðar viðhorf og menningu og opnaði augu okkar fyrir því hversu algengt vandamálið er í öllum lögum samfélagsins,“ sagði Ingibjörg.

Segir hún að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hafi gefið það út að ein af hverjum þremur konum sé beitt kynferðisofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Einungis um 10-15% þeirra sem eru beitt ofbeldi kæra.

„Í dag er því algengt að umræða myndist í netheimum um meint brot, þar sem ekki er hikað við að nafngreina einstaklinga og tilgreina meinta atburðarás, lýsa kynferðisofbeldi eða kynferðislegu áreiti. Þetta er gert til að flagga óæskilegri hegðun þar sem farið var yfir mörk og svipta hulunni af henni í þeim tilgangi að meintur gerandi axli ábyrgð,“ sagði Ingibjörg.

Rakti Ingibjörg að atburðarásin taki í framhaldi á sig mjög neikvæða og skaðlega birtingarmynd. Einstaklingur, sem sakaður er um ofbeldi á netinu, missi jafnvel atvinnu sína og mannorð. „Afleiðingarnar geta verið fjárhagslegar og félagslegar en þó aðallega andlegar því dómstóll götunnar hefur mikil völd og fer fram með óformlegum hætti.“

„Umræðan er óvægin og hún er grimm. Samfélagið hafnar þeim, vinnustaðir hafna þeim, skólar hafna þeim og jafnvel vinir og vandamenn hafna þeim. Grimmd umræðunnar er slík að bæði stjórnendur vinnustaða og -skóla veigra sér við að beita faglegum vinnubrögðum jafnvel þótt eingöngu sé um orðróm að ræða þar sem atvik eru umdeild og óljós.Dómur samfélagsins er almennt sá sami þrátt fyrir að brotin séu mismunandi: Útskúfun úr samfélaginu og fá sem engin tækifæri til endurkomu inn í samfélagið,“ sagði Ingibjörg.

„Slaufun beinist ekki eingöngu gagnvart þekktum einstaklingum, hún er því miður í öllum lögum samfélagsins. Það sem sárast er að börnin og ungmennin okkar fylgja fordæmi sinna fyrirmynda, taka í síauknum mæli upp þetta vopn í samskiptum og beita útskúfun og jafnvel líkamlegu eða stafrænu ofbeldi. Við heyrum jafnvel að ásökunum í garð ungs fólks á grunnskólaaldri, sem hefur varla hafið líf sitt, fari fjölgandi. Slík mál valda bæði meintum gerendum og þolendum miklum skaða.

Slaufun getur haft alvarlegar andlegar afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem fyrir henni verða og sumir lenda á hættulegum stað. Notkun vímuefna til að deyfa vanlíðan, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir verða sífellt líklegri í því hugarástandi. Einstaklingurinn missir samfélagið. Samfélagið missir einstaklinginn. Þarna hafa allir tapað,“ sagði Ingibjörg.

„Ég hef átt samtöl við fjölda aðila bæði innan og utan stjórnmála og við ráðherra ólíkra málaflokka. Við ætlum að taka höndum saman, kalla alla aðila til fundar næstkomandi haust um breytta nálgun í þessum málum og semja handrit til framtíðar þar sem raddir allra fá að heyrast. Með skýrri umgjörð getum við stuðlað að því mikilvægasta sem er mannvænt samfélag þar sem öryggi fólks er í fyrirrúmi,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Ég vil nýta tækifærið hér á eldhúsdegi til að ræða viðkvæmt og eldfimt málefni, málefni sem nauðsynlegt er að við horfumst í augu við. Fyrir nokkrum árum átti sér stað mikilvæg og þörf bylting undir formerkinu #metoo. Tímabær umræða opnaðist um kynferðislegt ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynjasamskipti og vakti athygli á því sem allt of margir hafa upplifað og borið skaða af. Metoo-byltingin hefur hjálpað okkur að berjast gegn fordómum, ójafnrétti og ofbeldi, skýra og virða mörk auk þess að ítreka mikilvægi þess að skýrt samþykki liggi fyrir. Metoo boðaði breytingar til hins betra. Í henni fólust róttækar og nauðsynlegar umbætur hvað varðar viðhorf og menningu og opnaði augu okkar fyrir því hversu algengt vandamálið er í öllum lögum samfélagsins.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er ein af hverjum þremur konum beitt kynferðisofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Of lengi höfðu konur fundið fyrir máttleysi samfélagsins og löggæslu- og ákæruvaldsins í þeirra málum ef þeim yfir höfuð var trúað. Reiði yfir óásættanlegum aðstæðum og eldmóður samstöðunnar kyntu undir byltingu sem átti eftir að breyta heiminum. Pendúllinn fór af stað og þolendur kynferðisofbeldis og kynferðislegrar áreitni skiluðu skömminni þangað sem hún átti heima. Hvert málið á fætur öðru var gripið á samfélagsmiðlum sem og í fjölmiðlum. Stjórnvöld fóru af stað með margvíslegar aðgerðir á forvarnastigi, innan löggæslu- og dómskerfisins og jafnvel í utanríkismálum.

Tölfræðin sýnir okkur að enn er langt í land að endurheimta traustið á löggæslu- og ákæruvaldinu, en talið er að einungis um 10–15% þeirra sem eru beitt ofbeldi kæri það. Rannsóknar- og ákærutími er rúmt ár að meðaltali, ef kæran lifir það lengi. Það er því vel skiljanlegt hvers vegna þolendur leita annarra leiða. Í dag er því algengt að umræða myndist í netheimum um meint brot, þar sem ekki er hikað við að nafngreina einstaklinga og tilgreina meinta atburðarás, lýsa kynferðisofbeldi eða kynferðislegu áreiti. Þetta er gert til að flagga óæskilegri hegðun þar sem farið var yfir mörk og svipta hulunni af henni í þeim tilgangi að meintur gerandi axli ábyrgð.

En sú atburðarás sem gjarnan fer af stað tekur aftur á móti á sig mjög neikvæða og skaðlega birtingarmynd. Þannig getur einstaklingur sem sakaður er um ofbeldi á netinu orðið fyrir því að missa atvinnu, mannorð og álit samfélagsins, allt jafnvel án ákæru, án dóms og án laga. Afleiðingarnar geta verið fjárhagslegar og félagslegar en þó aðallega andlegar því dómstóll götunnar hefur mikil völd og fer fram með óformlegum hætti. Umræðan er óvægin og hún er grimm. Samfélagið hafnar þeim, vinnustaðir hafna þeim, skólar hafna þeim og jafnvel vinir og vandamenn hafna þeim. Grimmd umræðunnar er slík að bæði stjórnendur vinnustaða og -skóla veigra sér við að beita faglegum vinnubrögðum jafnvel þótt eingöngu sé um orðróm að ræða þar sem atvik eru umdeild og óljós. Dómur samfélagsins er almennt sá sami þrátt fyrir að brotin séu mismunandi: Útskúfun úr samfélaginu og fá sem engin tækifæri til endurkomu inn í samfélagið.

Slaufun beinist ekki eingöngu gagnvart þekktum einstaklingum, hún er því miður í öllum lögum samfélagsins. Það sem sárast er er að börnin og ungmennin okkar fylgja fordæmi sinna fyrirmynda, taka í síauknum mæli upp þetta vopn í samskiptum og beita útskúfun og jafnvel líkamlegu eða stafrænu ofbeldi. Við heyrum jafnvel að ásökunum í garð ungs fólks á grunnskólaaldri, sem hefur varla hafið líf sitt, fari fjölgandi. Slík mál valda bæði meintum gerendum og þolendum miklum skaða.

Slaufun getur haft alvarlegar andlegar afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem fyrir henni verða og sumir lenda á hættulegum stað. Notkun vímuefna til að deyfa vanlíðan, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir verða sífellt líklegri í því hugarástandi. Einstaklingurinn missir samfélagið. Samfélagið missir einstaklinginn. Þarna hafa allir tapað.

Við höfum margrætt það hér í þessu ræðustól hversu dýrt það er samfélaginu að missa einstaklinga frá sér, jafnvel einstaklinga sem gerðust ekki sekir um það brot sem þeir eru ásakaðir um en einnig einstaklinga sem brjóta af sér og vilja bæta sig. Þolandinn sem tjáði sig á netinu til að koma umræðunni af stað missir atburðarásina úr höndunum því samfélagið hefur tekið að sér dómarahlutverkið. Það gerist æ oftar að einstaklingar beri aðra sökum nafnlaust og ábyrgðarlaust. Jafnvel getur verið um þriðja eða fjórða aðila að ræða sem tekur málin í sínar hendur, aðilar sem þekkja jafnvel ekki vel til málsins né tengjast því á nokkurn hátt. Atvikalýsingar geta breyst hratt þegar sögur berast á milli fólks og viðkomandi aðili hefur litla burði til að bera hönd yfir höfuð sér eða mögulega segja frá sinni hlið máls. Önnur taka þátt af hræðslu við að vera talin gerendameðvirk eða vera með því að hliðsetja raunverulega þolendur. Við erum komin á hættulegan stað ef slík þöggun er í gangi og þegar frásagnir eignast eigið líf þvert á vilja þeirra sem raunverulega eiga aðild að máli.

Við þurfum að axla ábyrgð á því sem við segjum. Okkar svæði á samfélagsmiðlum er opið öllum og fjölmiðlar grípa gjarnan efnið, afrita og líma á sínar síður án ábyrgðar. Margir hafa tileinkað sér róttæka afstöðu á báða bóga og við finnum óróleikann í samfélaginu þegar einhver opnar umræðuna. Fólk veigrar sér því við að tjá sig af ótta við afleiðingarnar.

Sem kjörnum fulltrúa finnst mér ég skuldbundin þjóðinni, sérstaklega æsku landsins, að taka þessa erfiðu umræðu. Við stöndum í auga stormsins og okkur vantar handrit og leiðarljós til framtíðar. Hlutverk samfélagsins hlýtur að vera að finna raunverulegar leiðir til að útrýma ofbeldi og skapa öryggi. Þar til við höfum náð því markmiði viljum við að finna jafnvægi pendúlsins þar sem skilningur, ábyrgð og skýrar leiðir til betrunar og sátta eru leiðandi sjónarmið fyrir alla aðila. Og ég tek það skýrt fram að þótt þessi umræða sé tekin er ekki verið að gera lítið úr brotaþolum hvers kyns ofbeldis, hvort sem það er kynferðisofbeldi eða annars konar líkamlegt eða andlegt ofbeldi. Það ber að taka alvarlega og koma lögum yfir allt það fólk sem gerist sekt um slíkt. En slaufunarmenning er vopn sem hefur snúist í höndunum á okkur og grafið undan trausti og samkennd í samfélaginu með því að skapa ógn og ala á ótta. Staða sem er hvorki lausn né sigur fyrir neinn.

Ég hef átt samtöl við fjölda aðila bæði innan og utan stjórnmála og við ráðherra ólíkra málaflokka. Við ætlum að taka höndum saman, kalla alla aðila til fundar næstkomandi haust um breytta nálgun í þessum málum og semja handrit til framtíðar þar sem raddir allra fá að heyrast. Með skýrri umgjörð getum við stuðlað að því mikilvægasta sem er mannvænt samfélag þar sem öryggi fólks er í fyrirrúmi.“