Categories
Fréttir

„Höldum á lofti gildum félagshyggju, samvinnu og lýðræðis“

Deila grein

08/06/2023

„Höldum á lofti gildum félagshyggju, samvinnu og lýðræðis“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, var annar ræðumaður Framsóknar á eldhúsdegi á Alþingi. Í ræðu sinni minnti hann á að Seðlabankinn, ríkisstjórnin, Alþingi, aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélög, bankar og fyrirtæki verði að koma saman að því að ná verðbólgunni niður.

„Við stöndum mjög sterk að vígi. Mikill þróttur er í hagkerfinu, atvinnuleysi er lágt og tekjur ríkissjóðs hafa vaxið verulega. Áherslur okkar á aukið aðhald í ríkisrekstri og aukið framboð á húsnæði mun vinna gegn verðbólgunni. Árangurinn mun byggja á samvinnu okkar allra og þar ætla kjörnir fulltrúar að leiða með góðu fordæmi,“ sagði Jóhann Friðrik.

Sagði hann að á Íslandi sé grunnurinn byggður á dugnaði þjóðar en að áfram verði að hafa fyrir hlutunum.

„Okkur hefur tekist að fjölga stoðunum undir íslenskt atvinnulíf, en fjölbreytt störf kalla á breytingar á menntakerfinu í takt við nýjar þarfir. Sjá má nýsköpun hvert sem litið er. Skapandi greinar, fjölbreytt ferðaþjónusta, fiskeldi, lyfjaþróun og alþjóðlegt vísindastarf skapar enn sterkari grundvöll fyrir betri lífsgæðum,“ sagði Jóhann Friðrik.

Sagði hann að stórstígar tækniframfarir með gervigreindin muni breyta eðli starfa og verkefna. Á sama tíma verði stjórnvöld að setja ramma sem tryggi að tæknin nýtist eins og best verði á kosið.

Ræddi Jóhann Friðrik jafnframt um lýðheilsu þjóðarinnar og möguleika þjóðarinnar að færa hana í fyrsta sæti. „Það á að vera okkar markmið að innleiða heilsueflingu eldra fólks um allt land. Þannig má rjúfa einangrun og styrkja andlega, líkamlega og ekki síst félagslega heilsu þeirra sem komnir eru á efri ár.“

Fór Jóhann Friðrik yfir að frá samþykkt farsældarlaganna hafi markvisst verið unnið að auka velferð barnanna okkar.

„Heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið og menntakerfið þurfa að vinna þétt saman til þess að veita stuðning og tækifæri til þroska og framfara. Við erum að fjárfesta í fólki. Við eigum einnig að styðja mun betur við íþrótta-og tómstundastarf hér á landi. Unga fólkið okkar sem kemur fram fyrir hönd þjóðarinnar og tekur þátt í landsliðsverkefnum á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort foreldrar geti staðið undir kostnaðinum,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Framsókn leggur áherslu á landið allt og mun halda á lofti gildum félagshyggju, samvinnu og lýðræðis, hér eftir sem hingað til. Við erum á ykkar vakt — í ríkisstjórn, á Alþingi, í borgarstjórn og í sveitarstjórnum hringinn í kringum landið“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Kæru Íslendingar. Verkefnið nú er að ná niður verðbólgunni og það verður aðeins gert með samvinnu. Við verðum að ganga í takt til þess að tryggja kaupmátt og lækka verðbólguna saman. Seðlabankinn, ríkisstjórnin, alþingi, aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélög, bankar og fyrirtæki verða að leggja sín lóð á vogarskálarnar.

Við stöndum mjög sterk að vígi. Mikill þróttur er í hagkerfinu, atvinnuleysi er lágt og tekjur ríkissjóðs hafa vaxið verulega. Áherslur okkar á aukið aðhald í ríkisrekstri og aukið framboð á húsnæði mun vinna gegn verðbólgunni. Árangurinn mun byggja á samvinnu okkar allra og þar ætla kjörnir fulltrúar að leiða með góðu fordæmi.

Það er gott að búa á Íslandi. Grunnurinn byggist á dugnaði þjóðarinnar og það er óskhyggja að halda því fram að við þurfum ekki að hafa fyrir hlutunum. Ég er stoltur af því hvernig við höfum staðið vörð um lýðræði og frelsi hér á landi. Innrás Rússa í Úkraínu minnir okkur á mikilvægi öryggis, frelsis og sjálfsákvörðunarréttar þjóða til að ráða örlögum sínum.

Já, verkefni okkar eru fjölmörg bæði til skemmri og lengri tíma. Það er ætlun okkar að gera gott samfélag enn betra, sem útheimtir dugnað, áræðni og kjark. Þjóðin er að eldast, fjórða iðnbyltingin heldur innreið sína, fjölmenning og breyttar áherslur nýrra kynslóða móta ný og spennandi tækifæri hér á landi. Okkur hefur tekist að fjölga stoðunum undir íslenskt atvinnulíf, en fjölbreytt störf kalla á breytingar á menntakerfinu í takt við nýjar þarfir. Sjá má nýsköpun hvert sem litið er. Skapandi greinar, fjölbreytt ferðaþjónusta, fiskeldi, lyfjaþróun og alþjóðlegt vísindastarf skapar enn sterkari grundvöll fyrir betri lífsgæðum. Gervigreindin mun færa okkur gríðarlega getu á mörgum sviðum og breyta eðli starfa og verkefna í tíma og rúmi. Samfara svo stórstígum tækniframförum eykst um leið hættan á notkun slíkrar tækni í annarlegum tilgangi. Því verða stjórnvöld hér á landi að setja ramma sem tryggir að tæknin nýtist eins og best verður á kosið.

Það á að vera gott að eldast hér á landi og þar skipar góð heilsa veigamikinn sess. Ísland hefur alla burði til þess að setja lýðheilsu þjóðarinnar í fyrsta sæti. Það á að vera okkar markmið að innleiða heilsueflingu eldra fólks um allt land. Þannig má rjúfa einangrun og styrkja andlega, líkamlega og ekki síst félagslega heilsu þeirra sem komnir eru á efri ár. Eldra fólk er nefnilega auðlind og óþrjótandi þekkingarbrunnur. Því verðum við að láta af aldursfordómum og gefa eldra fólki kost á því að vera áfram virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Nýsamþykkt aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk endurspeglar þessa skýru framtíðarsýn stjórnvalda.

Frá því að farsældarlögin voru samþykkt höfum við unnið markvisst að því að auka velferð barnanna okkar. Heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið og menntakerfið þurfa að vinna þétt saman til þess að veita stuðning og tækifæri til þroska og framfara. Við erum að fjárfesta í fólki. Við eigum einnig að styðja mun betur við íþrótta-og tómstundastarf hér á landi. Unga fólkið okkar sem kemur fram fyrir hönd þjóðarinnar og tekur þátt í landsliðsverkefnum á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort foreldrar geti staðið undir kostnaðinum.

Virðulegi forseti. Aldrei höfum við varið hærri upphæðum til heilbrigðismála. Við vinnum hörðum höndum að því að bæta starfsaðstæður og efla heilsugæsluna. Í því samhengi er fagnaðarefni að nefna nýja einkarekna heilsugæslu í Reykjanesbæ sem senn tekur til starfa. Við höldum svo áfram veginn í átt að stórbættu samgöngukerfi.

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Framsókn leggur áherslu á landið allt og mun halda á lofti gildum félagshyggju, samvinnu og lýðræðis, hér eftir sem hingað til. Við erum á ykkar vakt — í ríkisstjórn, á alþingi, í borgarstjórn og í sveitarstjórnum hringinn í kringum landið. — Góðar stundir.“