Categories
Fréttir

Fjölgun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu er stærsta byggðaaðgerðin sem ráðist hefur verið í

Deila grein

19/03/2024

Fjölgun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu er stærsta byggðaaðgerðin sem ráðist hefur verið í

Kristinn Rúnar Tryggvason, varaþingmaður, flutti jómfrúarræðu sína á Alþingi í dag, undir liðnum störf þingsins. Ræddi hann byggðamál og byggðaðgerðir og nátengt atriði, landbúnaðarmál, í ræðu sinni. Rakti hann að aukinn fólksfjöldi kalli á stærri íbúasvæði, en benti réttilega á að þróunin á Íslandi sé ýktari en gerist og gengur í nágrannarlöndum.

„Hér eru nærri 80% landsmanna á stórhöfuðborgarsvæðinu á meðan sambærilegar tölur fyrir nágrannalöndin eru 25–40%. Það er margt sem skýrir þessa þróun. Í áratugi hefur nánast öll stjórnsýsla verið byggð upp hér á þessu svæði með öllum þeim margfeldisáhrifum sem því fylgir. Atvinnutækifæri og þjónusta eru því fjölbreyttari og laða að. Þá eru opinber störf langflest á þessu svæði. Þetta eru stærstu byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í,“ sagði Kristinn Rúnar.

Sagðist hann ekki þurfa að tíunda hér á Alþingi hversu mikilvægt það væri að halda landinu sem mest í byggð. Það væri til lítils að fara um landið ef innviðirnir væru engir, en þeir væru þó víða í algeru lágmarki.

Landbúnaður og byggðamál eru nátengd

„Nýleg skýrsla sýnir að streita, þunglyndi og depurð er meiri en gengur og gerist hjá samanburðarhópum meðal íslenskra bænda. Fyrir utan vinnuálag og fjárhagsáhyggjur upplifa bændur sig í sífelldri vörn, ekki bara hvað varðar innflutning og tollamál, heldur er einnig neikvæð umræða og árásir af hálfu hins opinbera þar sem land er tekið af bændum á mjög hæpnum forsendum, ýmist í nafni þjóðlendumála eða landgræðslunnar,“ sagði Kristinn Rúnar og hélt svo áfram, „[s]íðan er ráðist á heilu búgreinarnar, m.a. héðan úr þessum sal, með ótrúlegum stóryrðum og af vanþekkingu.“

„Ég skora á alla sem hér vinna að snúa nú bökum saman og styðja við byggð og landbúnað í landinu. Þar sem ég sé fram á talsvert frí frá þingstörfum treysti ég á að þið berjist fyrir þessum málum, landi og þjóð til heilla“ sagði Kristinn Rúnar að lokum.


Ræða Kristins Rúnars í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að byggð þróist og borgarsvæðið stækki með auknum fólksfjölda. En þróunin á Íslandi er ýktari en gerist og gengur í kringum okkur. Hér eru nærri 80% landsmanna á stórhöfuðborgarsvæðinu á meðan sambærilegar tölur fyrir nágrannalöndin eru 25–40%. Það er margt sem skýrir þessa þróun. Í áratugi hefur nánast öll stjórnsýsla verið byggð upp hér á þessu svæði með öllum þeim margfeldisáhrifum sem því fylgir. Atvinnutækifæri og þjónusta eru því fjölbreyttari og laða að. Þá eru opinber störf langflest á þessu svæði. Þetta eru stærstu byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í.

Það er hins vegar mikið í húfi að halda landinu sem mest í byggð. Ég þarf ekki að tíunda það hér hvers vegna. Ég nefni þó ferðaþjónustuna. Það væri ekki vænlegt að fara um landið ef engir innviðir væru þar fyrir hendi og eru þeir nú víða í algeru lágmarki. Landbúnaður og byggðamál eru nátengd. Nýleg skýrsla sýnir að streita, þunglyndi og depurð er meiri en gengur og gerist hjá samanburðarhópum meðal íslenskra bænda. Fyrir utan vinnuálag og fjárhagsáhyggjur upplifa bændur sig í sífelldri vörn, ekki bara hvað varðar innflutning og tollamál, heldur er einnig neikvæð umræða og árásir af hálfu hins opinbera þar sem land er tekið af bændum á mjög hæpnum forsendum, ýmist í nafni þjóðlendumála eða landgræðslunnar. Síðan er ráðist á heilu búgreinarnar, m.a. héðan úr þessum sal, með ótrúlegum stóryrðum og af vanþekkingu.

Ég skora á alla sem hér vinna að snúa nú bökum saman og styðja við byggð og landbúnað í landinu. Þar sem ég sé fram á talsvert frí frá þingstörfum treysti ég á að þið berjist fyrir þessum málum, landi og þjóð til heilla.“