Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar segir í yfirlýsingu um samþykkt bæjarstjórnar á fjárhagsáætluninni 2019 að hann sé stoltur enda sé verið að lækka álagningarstuðul fasteignaskatts, bæði á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði og að auki væru fjölskylduvænar áherslur.
„Fjárhagsáætlun næsta árs var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar nú undir kvöld. Ég er mjög stoltur af þeirri áætlun og öllum þeim sem að henni komu. Í henni er margt gott að finna, m.a. lækkun álagningarstuðuls fasteignaskatts, bæði á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði – og fjölskylduvænar áherslur.
- Álagningarstuðull fasteignaskatts lækkar af atvinnuhúsnæði úr 1,57% í 1,40% og af íbúðahúsnæði úr 0,28% í 0,26%.
- Aukinn systkinaafsláttur er af dvalargjaldi í leikskólum, afsláttur fyrir annað systkini fer úr 50% í 75% og þriðja systkini úr 75% í 100%. Tekjutengdur afsláttur leikskólagjalda verður aukinn.
- Systkinaafslætti í fæðisgjöldum nemenda í grunnskóla verður komið á, þriðja systkini fær frítt.
- Fjárfest verður í félagslegu húsnæði fyrir 500mkr. á ári næstu fjögur árin.
- Fjármagn til innflytjendamála verður aukið með það fyrir augum að bæta þjónustu við þennan fjölmenna hóp Hafnfirðinga. Mikilvægt er að hlúa vel að þessum hóp sem telur um 10% íbúa.
Ég vil segja að með þessari fjárhagsáætlun séum við að stíga mjög stór og afgerandi skref í átt að betra samfélagi fyrir alla með fjölskylduvænum áherslum.
Þetta og margt fleira á vef Hafnarfjarðar. Áfram veginn,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson.