14. Kjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Norðausturkjördæmi (KFNA) haldið á Hallormsstað 18. október 2014 ályktar um flokksmál.
Flokksmálaályktun
Framsóknarfélögin
Kjördæmisþingið fagnar þeim fjölda fólks er bauð sig fram á listum flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar s.l. vor og þeim góða árangri sem þar náðist. Framsóknarfélögin gegndu lykilhlutverki í þessum árangri.
Þingið leggur áherslu á að starf félaganna um land allt eflist enn frekar þar sem þau sinna mikilvægu hlutverki í að gera stjórnmál áhugaverð og standa fyrir öflugri þjóðfélagsumræðu. Kjördæmisþingið hvetur félögin til aukinnar sameiningar/samstarfs til eflingar starfsins. Mikilvægt er að þingflokkur og þingmenn kjördæmisins taki þátt í starfi félaganna með ábyrgum hætti og sýni þannig gott fordæmi ef vel á til að takast í þessum efnum.
Ásýnd og ímynd
Kjördæmisþingið minnir á að flokkurinn hefur í starfi sínu unnið markvisst að því að efla ásýnd og ímynd í stjórnmálum almennt. Framsóknarflokkurinn innleiddi fyrstur flokka siðareglur fyrir sitt innra starf. Kjördæmisþingið leggur áherslu á að þetta góða starf haldi áfram og flokkurinn verði leiðandi afl í að endurheimta traust þjóðarinnar á Alþingi. Framsóknarflokkurinn var fyrstur flokka til að setja fram samræmdar framboðsreglur fyrir Alþingis- og sveitarstjórnarkosningar.
Kjördæmisþingið leggur á það áherslu að kjörnir fulltrúar Framsóknarflokksins hafi stefnuskrá og siðareglur flokksins ætíð að leiðarljósi í starfi sínu.
Fyrirkomulag kjördæmisþinga KFNA
Kjördæmisþing skal haldið til skiptis á Akureyri og Fljótsdalshéraði, þó skal í aðdraganda kosninga til Alþingis halda kjördæmisþing í Mývatnssveit. Stjórn kjördæmissambandsins ber ábyrgð á að ályktunum þingsins verði fylgt eftir til flokksþings og birtar á heimasíðu flokksins.
Fjáröflun
Þingið felur stjórn kjördæmissambandsins og skrifstofu flokksins að vinna að samræmdri fjáröflun kjördæmasambanda Framsóknarflokksins.
*****
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.