,,Verðbólga hefur ekki lækkað eins og vonir stóðu til um og er 4% á ársgrundvelli. Skilaboð Seðlabanka Íslands í maí voru skýr: Það verða engar frekari lækkanir nema verðbólgan færist nær 2,5% markmiðinu. Má því teljast ólíklegt að almenningur og atvinnulíf sjái vexti lækka á næstunni. Þetta eru mjög slæm tíðindi fyrir efnahagsframvinduna og það sem meira er að hækkanir á vísitöluneysluverðs eru á breiðum grunni. Verðbólga hafði farið ört lækkandi frá júlí 2024 og vaxtalækkunarferlið komið af stað. Þróun verðbólgunnar eru verstu tíðindi sem heimili landsins hafa fengið í langan tíma. Að sama skapi virðist lánamarkaðurinn að þróast til hins verra og svo hægist verulega á byggingarmarkaðnum.
Langtímavextir hafa hækkað á þessu ári ásamt því að ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa til lengri tíma hefur hækkað umtalsvert. Væntingar markaðarins um þróun verðbólgu og raunvaxta hafa hækkað til lengri tíma. Hærri raunvextir eru fyrirséðir næstu árin samkvæmt markaðsaðilum. Þetta þýðir að vextir til heimilanna verða einnig hærri til lengri tíma, þar sem fjármögnunarkostnaður ríkisins er grunnur að verðlagningu alls kerfisins. Kostnaður ríkissjóðs vegna hærri verðbólgu er að aukast ásamt því að heimilin bera hærri vexti. Þetta þýðir að hagvöxtur verður minni en ella, af því að ríkisstjórnin hefur sofið á verðinum gagnvart verðbólgunni.
Samdráttar á heildarfjölda íbúða í byggingu hefur gætt síðan síðasta haust í tölum hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Lóðaúthlutanir hafa verið talsverðar en dregist hefur að koma framkvæmdum af stað vegna þrálátrar verðbólgu og aðstæðna á fjármálamarkaði. Ef þetta verður raunin næsta árið, þá mun skortur myndast, sem hækkar verðið svo aftur og það hefur aftur áhrif á vísitöluneysluverð.
Það er afar miður að efnahagsstjórnin hafi ekki einblínt meira á verðbólguna en raun ber vitni. Ríkisstjórnin hefur í stað þess boðið atvinnulífinu upp á óvissu í formi fyrirhugaðra skattahækkana og ekki látið laun sín taka mið af verðbólgumarkmiðinu eða kjarasamningum á almennum markaði. Ríkisstjórnin hefur ítrekað verið vöruð við því að hún væri á rangri leið í efnahagsmálum, sem mun bitna á hagvexti og velsæld fyrir þjóðina.
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur mistekist að halda áfram á þeirri vegferð að lækka verðbólgu, sem síðasta ríkisstjórn lagði ofurkapp á og var farin að ná árangri eins og þróun vísitöluneysluverðs sýnir frá júlí 2024. Hagsagan sýnir okkur að ef stjórnvöld sýna linkind gagnvart verðbólgunni, þá verður hún þrálát og erfiðari viðureignar. Því er ljóst að sleggjan hefur farið af skaftinu!”
Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. júlí 2025