Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti máls á framkominni menntastefnu, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir árin 2020-2030 í störfum þingsins í dag.
„Stefnan er metnaðarfull og leiðarljós hennar eru þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja. Ég tel afskaplega mikilvægt að stefnan fái ítarlega og markvissa umfjöllun á Alþingi, en einnig að hún verði afgreidd hratt og vel þannig að hún fari að skila árangri sem fyrst. Við þurfum skýra menntastefnu á hverjum tíma,“ sagði Líneik Anna.
Líneik Anna fagnaði því sérstaklega að texti menntastefnunnar væri stuttur og hnitmiðaðar. Það væri merki um vel ígrundaða og skýra stefnu. Jafnframt væri það góð tilbreyting fyrir skólafólk að fá hnitmiðaðan texta til að vinna eftir á máli sem allir skyldu.
„Ég vil líka nota þetta tækifæri og vekja athygli á tengslum menntastefnunnar við vinnu að umbótum í málefnum barna sem fram fer á vegum félags- og barnamálaráðherra. Áhersla menntastefnu um snemmbæran stuðning sem lið í jöfnum tækifærum fyrir alla og áhersla á ábyrgð og samhæfingu þjónustukerfa til að tryggja gæði er einmitt í fullu samræmi og beinum tengslum við vinnu að umbótum í málefnum barna,“ sagði Líneik Anna að lokum.