Categories
Fréttir

Framkvæmd farsældarlaganna

Deila grein

19/10/2022

Framkvæmd farsældarlaganna

Elsa Lára Arnardóttir, varaþingmaður, fór yfir framkvæmd farsældarlaganna, í störfum þingsins, á Alþingi, sem hafa verið innleidd í velfarðar- og skólakerfinu. Hugmyndafræðin er komin inn í vinnuferla hjá sveitarfélögum.

„Unnið er að því að þjónusta börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra á réttum stað í kerfinu og lögð er áhersla á að grípa fyrr inn í til að aðstoða börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Nokkur sveitarfélög hafa ráðið verkefnastjóra og málsstjóra inn á bæjarskrifstofur og tengiliðir starfa innan skólakerfisins, sem er nauðsynlegt til að ná markmiðum farsældarlaganna,“ sagði Elsa Lára.

Tengiliðirnir og fagfólkið á velferðar- og skólasviðum grípa nú fyrr inn í mál barna, til að finna leiðir til að vinna að aðgerðum. Mikilvægi þessa er einstaklega þarft nú vegna frétta af ofbeldismálum og slæmri líðan barna og ungmenna.

„Nauðsynlegt er að sveitarfélögum verði áfram tryggt fjármagn til að framkvæmd þessara laga nái fram að ganga til lengri tíma og að horft verði til þess hvaða sveitarfélög hafa ráðið til sín málsstjóra og tengiliði og fá þá greitt í samræmi við það,“ sagði Elsa Lára.

Hún vill að tryggt sé að heilsugæslan geti tekið þátt í þessu verkefni af fullum þunga líkt og lagt er upp með í farsældarlögunum. Segir hún að á nokkrum heilbrigðisstofnunum um landið skorti tengiliði inn í mæðra- og ungbarnavernd.

„Að lokum vil ég þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra fyrir góða vinnu í þágu barna og ungmenna en hann hefur verið að stíga mjög stórt skref til að koma á móts við þau og fjölskyldur þeirra. Með nýjustu aðgerðinni er hann m.a. að stíga stórt skref til þess að þjónusta skólasamfélagið betur og það er full þörf á því,“ sagði Elsa Lára að lokum.

Ræða Elsu Láru á Alþingi:

„Herra forseti.

Ég ætla að ræða um framkvæmd farsældarlaganna, þessara mikilvægu laga sem hafa nú verið innleidd, m.a. í velferðar- og skólakerfinu okkar. Nú þegar er hugmyndafræði laganna komin inn í vinnuferla hjá sveitarfélögum. Unnið er að því að þjónusta börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra á réttum stað í kerfinu og lögð er áhersla á að grípa fyrr inn í til að aðstoða börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Nokkur sveitarfélög hafa ráðið verkefnastjóra og málsstjóra inn á bæjarskrifstofur og tengiliðir starfa innan skólakerfisins, sem er nauðsynlegt til að ná markmiðum farsældarlaganna. Saman nær þessi hópur, ásamt öðru fagfólki á velferðar- og skólasviðum, að grípa fyrr inn í mál barna, ungmenna og fjölskyldna til að finna leiðir til að vinna að aðgerðum, m.a. fyrir börnin og fjölskyldur þeirra til að bæta líðan þeirra og gæði. Þetta er einstaklega mikilvægt á þessum tíma þegar við fáum í sífellu fréttir af ofbeldismálum og slæmri líðan barna og ungmenna. Nauðsynlegt er að sveitarfélögum verði áfram tryggt fjármagn til að framkvæmd þessara laga nái fram að ganga til lengri tíma og að horft verði til þess hvaða sveitarfélög hafa ráðið til sín málsstjóra og tengiliði og fá þá greitt í samræmi við það. Einnig þarf að tryggja að heilsugæslan geti tekið þátt í þessu verkefni af fullum þunga eins og lagt er upp með í farsældarlögunum, en á nokkrum heilbrigðisstofnunum um landið skortir tengiliði inn í mæðra- og ungbarnavernd. Nauðsynlegt er að bregðast við þeirri stöðu.

Að lokum vil ég þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra fyrir góða vinnu í þágu barna og ungmenna en hann hefur verið að stíga mjög stórt skref til að koma á móts við þau og fjölskyldur þeirra. Með nýjustu aðgerðinni er hann m.a. að stíga stórt skref til þess að þjónusta skólasamfélagið betur og það er full þörf á því.“