Categories
Fréttir

„Tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni“

Deila grein

19/10/2022

„Tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, ræddi mikilvægi byggðamála, störfum þingsins á Alþingi, enda væru staða landshlutanna ójöfn. Það eigi við um þjónusta ríkis, sveitarfélaga á svæðinu, vegalengda í þjónustu, fjölbreytni atvinnulífs og aðgengi að framhaldsskólamenntun og svo mætti lengi telja.

„Það sem mig langar sérstaklega að beina sjónum mínum að í þessari ræðu er Norðurland vestra, Strandir og Dalir. Þessi búsældarlegu svæði eiga undir högg að sækja og hefur íbúaþróun síðastliðinna ára sýnt það með mjög afgerandi hætti að aðgerða er þörf á svæðinu,“ sagði Stefán Vagn.

Sagði hann að önnur landsvæði hafi náð að fylgja eftir þróun í íbúafjölda og hagvexti en að þá sitji þetta svæði eftir. Íbúaþróun á svæðinu er undir landsmeðaltali undanfarin ár. Það fluttu tæplega 100 manns af svæðinu umfram aðflutta á árunum 2012-2019 eða rúmlega 1% af íbúum svæðisins. Hagvöxtur á Norðurlandi vestra er undir landsmeðaltali eða að jafnaði 2,5% á árunum 2012-2019 sem er um 2% undir hagvexti annarra landshluta.

Stefán Vagn sagði ljóst „að þær byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í á liðnum árum hafa ekki virkað sem skyldi fyrir þetta svæði og í byggðastefnunni og byggðaáætluninni hefur þetta svæði ekki verið gripið með nægilegum hætti.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að við grípum inn í áður en það verður of seint og tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Ræða Stefáns Vagns:

„Virðulegur forseti.

Byggðamál eru mér ofarlega í huga og hafa verið lengi og eru í raun aðalástæða þess að ég hóf afskipti mín af stjórnmálum fyrir um 13 árum síðan, fyrst sem sveitarstjórnarmaður og síðan sem fulltrúi á Alþingi. Það er ljóst og hefur verið í langan tíma að staða landshlutanna er ekki jöfn. Fyrir því eru margar ástæður; þjónusta ríkis á viðkomandi svæði, þjónusta sveitarfélaga á svæðinu, vegalengdir í þjónustu, fjölbreytni atvinnulífs og aðgengi að framhaldsskólamenntun, svo lengi mætti telja.

Það sem mig langar sérstaklega að beina sjónum mínum að í þessari ræðu er Norðurland vestra, Strandir og Dalir. Þessi búsældarlegu svæði eiga undir högg að sækja og hefur íbúaþróun síðastliðinna ára sýnt það með mjög afgerandi hætti að aðgerða er þörf á svæðinu. Meðan önnur landsvæði hafa fylgt eftir þróun í íbúafjölda og hagvexti situr þetta svæði eftir. Með því er ég á engan hátt að gera lítið úr erfiðleikum annarra svæða, dreifbýlla eða þéttbýlla, en langar hins vegar að vekja sérstaklega athygli á þessu svæði hér í dag. Íbúaþróun á svæðinu hefur verið undir landsmeðaltali undanfarin ár. Þó svo að fjölgað hafi á svæðinu örlítið síðustu ár er sú fjölgun ekki í neinum takti við það sem önnur landsvæði eru að horfa á. Alls fluttu tæplega 100 manns af svæðinu umfram aðflutta á árunum 2012–2019 en það er rúmlega 1% af íbúum svæðisins. Hagvöxtur er einnig undir landsmeðaltali og má þar nefna að hagvöxtur á Norðurlandi vestra var að jafnaði 2,5% á árunum 2012–2019 en það er um 2% undir hagvexti annarra landshluta.

Að þessu sögðu er ljóst að þær byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í á liðnum árum hafa ekki virkað sem skyldi fyrir þetta svæði og í byggðastefnunni og byggðaáætluninni hefur þetta svæði ekki verið gripið með nægilegum hætti.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að við grípum inn í áður en það verður of seint og tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni.“