Categories
Fréttir

Framsókn 97 ára

Deila grein

16/12/2013

Framsókn 97 ára

logo-framsokn-256x300Framsóknarflokkurinn var stofnaður á Alþingi 16. desember árið 1916. Fyrstu árin starfað hann eingöngu sem þingflokkur en uppúr 1930 var honum breytt í formlega fjöldahreyfingu með flokksfélög sem grunneiningar. Framsóknarflokkurinn var stofnaður til að virkja framfaraaflið í þjóðinni og íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum. Framfarasaga Íslands og sú hugmyndafræði sem Framsóknarflokkurinn byggir á, frjálslyndi, framsækni, samvinna og rökhyggja tengjast órjúfanlegum böndum.
Uppruna flokksins má rekja til tveggja hreyfinga sem höfðu mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag á fyrstu árum aldarinnar þ.e. samvinnuhreyfingarinnar og ungmennafélaganna. Þessi samtök börðust m.a. fyrir almennum framförum og umbótum í landinu, aukinni menntun og atvinnurekstri sem tryggði mönnum sannvirði fyrir vöru og vinnu. Þessi hugsjónalegi bakgrunnur hafði mikil áhrif á stefnu flokksins og gerir enn í dag.
Stefnan
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum og lausn sameiginlegra viðfangsefna í þjóðfélaginu. Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði í anda hófsemi og heiðarleika og teljum farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu fulltrúa ólíkra afla og hagsmuna. Við viljum áfram byggja upp íslenskt þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi. Við berjumst fyrir mannréttindum og munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.
Sömu tækifæri fyrir alla
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum tryggja öllum einstaklingum sömu tækifæri til menntast og þroska hæfileika sína í leik og starfi. Við höfnum allri mismunun sem byggist á uppruna fólks eða ólíkum skoðunum. Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni þar sem margbreytileikinn fær að njóta sín. Við viljum jafna búsetuskilyrði með því að standa vörð um uppbyggingu samgangna og fjarskipta, fjölbreytts menntakerfis og vandaðrar heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.