Categories
Greinar

Stórkostleg fjárlög

Deila grein

16/12/2013

Stórkostleg fjárlög

sigrunmagnusdottirÞessa dagana eru miklir annatímar á Alþingi. Löng umræða varð um Fjáraukalög fyrir árið 2013 og Fjárlög næsta árs liggja fyrir til afgreiðslu. Við sem styðjum ríkisstjórnina erum ánægð með gang mála og horfum vonglöð til framtíðar. Aðalbaráttumál stjórnarflokkanna í síðustu kosningum er að fá farsælan framgang. Fundin var sameiginleg niðurstaða þar sem helstu áherslur beggja stjórnarflokkanna til bjargar heimilunum í landinu fengu farveg. Forsendubresturinn vegna verðtryggðra skulda heimilanna verður leiðréttur að mestu með skattheimtu á lánastofnanir og með ráðstöfun séreignarlífeyrissparnaðar.

Þrátt fyrir að Fjáraukalög 2013 séu að mestu afleiðing af óraunhæfri fjárlagagerð síðustu ríkisstjórnar, hafði stjórnarandstaðan allt á hornum sér. Hún tók þá ýmsar ákvarðanir um verulegar hækkanir nokkurra útgjaldaliða sem ekki var innstæða fyrir og bætti síðan um betur í síðustu kosningabaráttu með stórfelldum fyrirheitum um greiðslur á næsta fjárlagaári. Það er ásetningur núverandi ríkisstjórnar að afgreiða hallalaus fjárlög fyrir næsta ár, þannig að óhjákvæmilegt er að draga sumt til baka sem fyrri stjórn gaf fyrirheit um.

Ríkisstjórnin stendur vörð um félags- og heilbrigðismál. Ákveðið er að auka framlög til sjúkrastofnana um fjóra milljarða frá því sem tillaga var gerð um í frumvarpinu. Allt að 6 þúsund milljónir króna fara til almannatrygginga, mest til styrktar eldri borgurum og öryrkjum. Þannig er verið að draga til baka skerðingar sem eldra fólk varð fyrir upp úr hruni. Skattar á millitekjur lækka um 5 þúsund milljónir og til leiðréttingar á forsendubresti húsnæðislána eru ætlaðar 20 þúsund milljónir með bankaskattinum. Þessar viðbótargreiðslur nema 35 milljörðum til heimilanna í landinu.Til meðferðar eru í þinginu frumvörp um frestun á nauðungarsölum og til að gera fólki léttbærara að komast í gegnum gjaldþrot. Þá verður ungu fólki auðveldað að kaupa sína fyrstu íbúð með því að veita afslátt af stimpilgjöldum.

Við stjórnarsinnar getum því verið ánægð og stolt yfir hallalausum fjárlögum næsta árs og að jafnframt hafi tekist að koma helstu stefnumálum flokkana í höfn til hagsbóta fyrir heimilin og heilbrigðiskerfið.

 

Sigrún Magnúsdóttir