Categories
Fréttir

Umfang aðgerðanna hóflegt

Deila grein

17/12/2013

Umfang aðgerðanna hóflegt

Willum Þór ÞórssonWillum Þór Þórsson, alþingismaður, vék athygli á áliti Moody’s á skuldaleiðréttingartillögunum ríkisstjórnarinnar á Alþingi í dag er varðar lánshæfismat á Íbúðalánasjóði. Sagði hann m.a.: „Hér mitt í fjárlagaumræðunni er um afar jákvæð skilaboð að ræða og ekki síður mikilvæg í því ljósi að það hafa verið vangaveltur uppi, og það með réttu, um að lánshæfi ríkissjóðs mundi lækka. Þetta álit Moody’s á skuldaleiðréttingartillögunum er í takti við álit annars lánshæfismatsfyrirtækis, Fitch, sem á dögunum staðfesti lánshæfi ríkissjóðs og mat horfur stöðugar. Þá má spyrja hvaða þýðingu þetta hafi raunverulega. Hér er verið að segja að umfang aðgerðanna sé hóflegt en Moody’s metur engu að síður að þær hafi jákvæð áhrif á hagkerfið.“
„Þetta er í samræmi við niðurstöður sérfræðingahópsins og formaður hópsins, Sigurður Hannesson, ítrekar að aðgerðirnar hafi verið hannaðar þannig að neikvæð áhrif væru lágmörkuð en sem allra mest gert úr jákvæðum áhrifum og hvötum.“
Ríkisstjórnin kynnti 30. nóvember s.l. aðgerðaáætlun með það að markmiði að lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu. Annars vegar er um að ræða lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattaívilnun vegna séreignarlífeyrissparnaðar sem fellur til eftir að aðgerðin er komin til framkvæmda. Unnt verður að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði til lækkunar höfuðstóls og býðst sú leið öllum þeim sem skulda húsnæðislán óháð lánsformi.
Verðtryggð húsnæðislán verða færð niður um fjárhæð sem samsvarar verðbótum umfram 4,8% sem féllu til á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010. Þetta samsvarar um 13% leiðréttingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Hámarksfjárhæð niðurfærslu á heimili verður 4 m.kr. Um 90% heimila sem rétt eiga til leiðréttingar verða ekki fyrir skerðingu vegna hámarksins, þ.e. lán sem stóðu í allt að 30 m.kr. í lok árs 2010.
Frá umræðunni á Alþingi í dag: