Í dag eru fimm dagar til sveitarstjórnarkosninga í landinu þar sem um 277.000 kjósendur munu hafa tækifæri til að tjá hug sinn með atkvæðum sínum. Sveitarstjórnarmál skipta miklu máli í því góða lýðræðissamfélagi sem við búum í. Á vettvangi þeirra stíga margir sín fyrstu skref í stjórnmálum og félagsstörfum til þess að bæta samfélag sitt og auka lífsgæði íbúanna. Sveitarfélögin eru ábyrg fyrir að veita mikilvæga og fjölbreytta nærþjónustu sem snertir hag fólks með beinum hætti á hverjum einasta degi – til dæmis með því að viðhalda litlum umferðargötum, fjarlægja rusl, skipuleggja og úthluta lóðum, veita barnafjölskyldum ýmsa stoðþjónustu, halda úti leik- og grunnskólum og þjónusta eldri borgara.
Í fjölmörgum sveitarfélögum hringinn um landið býður Framsókn fram öfluga lista, skipaða fólki sem brennur fyrir það að gera samfélagið sitt betra en það var í gær. Frambjóðendur flokksins koma úr ýmsum áttum, nestaðir með fjölbreyttum bakgrunni, reynslu og þekkingu sem nýtist með ýmsu móti til þess að auka velsæld íbúanna. Það er ánægjulegt að finna fyrir og heyra af þeim mikla meðbyr sem frambjóðendur Framsóknar finna út um allt land. Allir eiga þeir það sameiginlegt að vilja vinna samvinnuhugsjóninni brautargengi og stuðla að uppbyggilegum stjórnmálum út frá miðjunni. Sem miðjuflokkur leggur Framsókn áherslu á praktískar og öfgalausar lausnir sem eru til þess fallnar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólíkum stjórnmálaflokkum til þess að bæta samfélagið. Það hefur flokkurinn margoft gert með góðum árangri; að brúa bilið milli ólíkra sjónarmiða til þess að ná árangri fyrir land og þjóð. Við í Framsókn segjum gjarnan að samfélag sé samvinnuverkefni og í því er fólginn mikill sannleikur.
Það er ánægjulegt að sjá að kannanir benda til þess að Framsókn sé sérstaklega að sækja í sig veðrið á höfuðborgarsvæðinu. Fólk er í auknum mæli að kalla eftir aukinni samvinnu til þess að takast á við áskoranir samtímans. Það er klárlega rými fyrir slíkt í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem hörð átakastjórnmál hafa verið stunduð undanfarin ár, á sama tíma og þjónusta við borgarbúa hefur of oft ekki staðið undir væntingum – hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki. Þannig mælist traust á ráðhúsinu minnst af öllum stofnunum sem eru mældar og ánægja Reykvíkinga með þjónustu borgarinnar mælist talsvert minni en í nágrannasveitarfélögunum. Þessu þarf að breyta og hugmyndafræði Framsóknar mun þar leika lykilhlutverk.
Ég hvet kjósendur til þess að kynna sér frambjóðendur og málefni Framsóknar fyrir komandi kosningar og nýta kosningarétt sinn í kosningunum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2022.