Það er með ólíkindum að árið 2025 skuli Suðurnesjabær enn ekki hafa hrint í framkvæmd gerð gervigrasvallar fyrir börn og ungmenni sveitarfélagsins. Miðað við nýjustu vendingar er málið nú að teygja sig inn á þriðja kjörtímabil sameinaðs sveitarfélags sem varð til 2018.
Á meðan kostnaðurinn hækkar og meirihlutinn hikstar sitja börn og ungmenni eftir án aðstöðu sem annars er talin sjálfsögð í flestum sveitarfélögum. Við sitjum eftir með skýrslur, áætlanir og loforð sem aldrei verða að veruleika.
Kostnaðarmat
Í skýrslu Verkís, sem unnin var fyrir sveitarfélagið í tengslum við hönnun á gervigrasvelli og kom út í maí 2022, var kostnaður metinn svo:
m.kr.
Miðjan: 892
Garður: 656
Sandgerði, aðalvöllur: 575
Sandgerði, æfingavöllur: 620
Þessar tölur eru á verðlagi 2022. Til að meta raunverulegan stofnkostnað í dag er eðlilegt að færa þær í núvirði króna með vísitölu neysluverðs Hagstofu Íslands (VNV).
VNV í maí 2022: 539,5
VNV í september 2025: 658,6
Hækkun: ≈ 22,1%
Verðbættar tölur (2025)
m.kr.
Miðjan: ~1.089
Garður: ~801
Sandgerði, aðalvöllur: ~702
Sandgerði, æfingavöllur: ~757
Ath.: Fyrir hreinan mannvirkjahluta mætti einnig skoða byggingarvísitölu Hagstofu, en hún breytir ekki meginröðun kostanna þar sem Sandgerði nýtir nú þegar innviði (stúku, salerni, félagsaðstöðu o.s.frv.) sem halda stofnkostnaði niðri.
Hagkvæmasti kosturinn er augljós: að byggja á aðalvellinum í Sandgerði. Þar eru þegar fyrir hendi 340 manna steypt stúka, salernisaðstaða, félagsheimili á tveimur hæðum, vélageymsla og öll helstu grunnmannvirki sem þarf. Auk þess er lóðin í eigu sveitarfélagsins sjálfs, sem tryggir bæði eignarhald og einfaldar framkvæmdina án þess að ráðast í kostnaðarsöm lóðarkaup eða viðræður um afnotarétt.
Ákvörðun gegn betri vitund
Hinn 5. júní 2024 samþykkti bæjarstjórn að byggja völlinn á aðalvellinum í Sandgerði, með þeim afleiðingum að klofningur varð innan Sjálfstæðisflokksins og meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem myndaður var eftir kosningarnar 2022, sprakk. Nú hefur nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans hins vegar snúið af þeirri leið og lagt fram tillögu um hönnun á Miðjunni – dýrasta og óraunhæfasta kostinum.
Þar er ekkert til staðar: ekki fráveita, ekki vatn, engin salernisaðstaða og engir búningsklefar. Aðeins lagning aðveitulagna fyrir snjóbræðslu og vatnsból er áætluð 76,8 milljónir króna á verðlagi 2022. Þetta er ekki aðeins óhagkvæmt – þetta er ábyrgðarleysi gagnvart skattgreiðendum og íþróttalífi sveitarfélagsins.
Þungur rekstur og hátt vaxtastig
Suðurnesjabær hefur aðeins 300-350 milljónir króna á ári til framkvæmda án lántöku. Með því að velja Miðjuna er ekki aðeins verið að hækka stofnkostnað um hundruð milljóna heldur er bærinn settur í vegferð sem mun bitna á öðrum brýnum verkefnum, svo sem:
auknu leikskólarými í Garði með byggingu nýs leikskóla
stækkun Sandgerðisskóla
úrlausn fráveitumála
Þetta gerist á sama tíma og stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 7,5% og verðbólga mælist 3,8%. Því er augljóst að sveitarfélagið þarf að forgangsraða fjármunum sínum með sérstakri varfærni.
Börnin okkar sitja eftir
Afleiðingarnar eru skýrar:
Börn og íþróttafélög í Suðurnesjabæ búa við lakari aðstöðu en jafnaldrar þeirra í nágrannasveitarfélögum
Íþróttalífið lamast og foreldrar missa áhuga á að senda börn sín til iðkunar
Börnin fá þau skilaboð að þeirra framtíð sé ekki í forgangi
Gervigrasvöllur er forsenda fyrir vetrarstarfi knattspyrnunnar. Því miður heldur meirihlutinn áfram að tefja málið með endalausum skýrslubeiðnum og dýrum hönnunarkostnaði sem leggur tugmilljónir á bæjarsjóð.
Við eigum betra skilið
Íbúar Suðurnesjabæjar eiga betra skilið. Börnin okkar eiga betra skilið. Það er kominn tími til að setja punkt við margra ára aðgerðaleysi og hefja byggingu hagkvæms gervigrasvallar í Suðurnesjabæ – í Sandgerði, þar sem allir innviðir eru fyrir hendi og land í eigu sveitarfélagsins sjálfs.
Hvað þarf að gera núna?
Byggja völlinn í Sandgerði – hagkvæmasti og skynsamlegasti kosturinn
Sýna pólitíska ábyrgð – hætta að fresta og taka ákvörðun
Setja börnin í forgang – tryggja þeim aðstöðu sem þau eiga rétt á
Vernda bæjarsjóð – velja framkvæmdir sem sveitarfélagið ræður við
Íþróttir eru ekki aðeins leikur á vellinum – þær eru grunnur að heilbrigðu líferni og lykill að velsæld barna.
Nú þarf kjark til að taka ákvarðanir með hag bæjarsjóðs og barna í Suðurnesjabæ að leiðarljósi. Íþróttafélögin tvö, Reynir og Víðir, hafa ekki sameinast, en það má ekki standa í vegi fyrir skynsamlegri framtíðaruppbyggingu. Það er kominn tími til að leggja hrepparíginn til hliðar og hugsa fyrst og fremst um hag barnanna okkar. Þar skiptir máli að minna á að sveitarfélagið rekur gjaldfrjálsan frístundaakstur milli byggðarkjarna, sem tryggir öllum börnum jafnan aðgang að æfingum og aðstöðu. Byggjum því upp íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ með skynsamlegum hætti – í þágu allra íbúa sveitarfélagsins.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2025.