Þegar kolanámur voru helsta uppspretta orkuöflunar tóku námuverkamenn með sér litla kanarífugla niður í djúpar og skítugar námur. Fuglarnir voru ekki þar til skrauts, heldur sem viðvörunarkerfi. Ef fuglarnir hættu að syngja eða féllu dauðir til jarðar þá var það merki um ósýnilegan en banvænan gasleka.
Frakkland er forysturíki í Evrópusambandinu, stendur sterkt menningarlega og ein öflugustu fyrirtæki Evrópu eru staðsett þar. Hins vegar ríkir þar nánast stöðug stjórnarkreppa, þar sem skuldir landsins hafa náð hæstu hæðum síðan mælingar hófust. Fjárlagahallinn er meiri en hjá öllum öðrum aðildarríkjum evrusvæðisins. Eins og fuglinn sem hættir að syngja gefa þessar tölur til kynna að mikill kerfisvandi sé til staðar og tímabært að hrinda í framkvæmd neyðaráætlun.
Þegar Emmanuel Macron varð forseti Frakklands árið 2017 lofaði hann að lækka skatta, efla hagvöxt og gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri. Að einhverju leyti hefur þetta gengið eftir, þar sem atvinnuleysi hefur minnkað og fjárfestingar aukist. Hins vegar standa ríkisfjármálin það veikt að tvær ríkisstjórnir hafa fallið í vegferð sinni til að minnka útgjöld ríkissjóðs. Vandinn er ekki nýtilkominn, heldur hefur franski ríkissjóðurinn verið rekinn með halla í áratugi. Staða ríkisfjármála í Frakklandi er ósjálfbær og nú þarf franska ríkið að fjármagna sig á hærri vöxtum en fyrirtækin Airbus og L’Oreal. Matsfyrirtækið Fitch hefur lækkað lánshæfiseinkunn franska ríkissjóðsins og nefndir að skuldir geti hækkað í allt að 121% af landsframleiðslu. Jafnframt er talið að áætlun um að lækka fjárlagahallann sé ótrúverðug.
Kanarífuglinn í kolanámunni gaf vísbendingu um að mikil hætta væri á ferðum. Spurning er hvort franski kanarífuglinn sé að vara við stærri hættu sem nær yfir fleiri ríki Evrópusambandsins, þar sem þau glíma við mikinn fjárlagahalla og miklar skuldir hins opinbera. Þessi slæma staða hjá forysturíki í Evrópusambandinu er ekki góð tíðindi fyrir Ísland. Við eigum í miklum viðskiptum við evrusvæðið og ef dregur úr kaupmætti og hagvexti þá dregur úr utanríkisviðskiptum, sem minnkar verðmætasköpun á Íslandi.
Vegna þess mikla efnahagsvanda sem mörg leiðandi ríki Evrópusambandsins standa frammi fyrir eiga íslensk stjórnvöld ekki að eyða dýrmætum tíma lands og þjóðar í ESB-erindisleysu. Stærsta áskorun þessarar ríkisstjórnar er að ná verðbólgu og vöxtum niður. Hægst hefur verulega á lækkun verðbólgu og því hafa vextir ekki lækkað eins og væntingar stóðu til um. Ég hvet ríkisstjórnina til góðra verka, að standa við gefin loforð um lækkun verðbólgu og nýta tíma okkar allra í að efla verðmætasköpun í þágu aukinnar velsældar fyrir fólkið í landinu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2025.