Categories
Fréttir Greinar

Friður felst í því að efla varnir

Deila grein

20/02/2025

Friður felst í því að efla varnir

Þess er minnst um heim all­an að 80 ár eru síðan seinni heims­styrj­öld­inni lauk en hún fól í sér mestu mann­fórn­ir í ver­ald­ar­sög­unni. Víða hef­ur verið háð stríð eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina en ekk­ert í lík­ind­um við hana. Öll vit­um við að friður er far­sæl­ast­ur og býr til mesta vel­meg­un í sam­fé­lagi manna.

Mikið upp­nám hef­ur ríkt í alþjóðastjórn­mál­un­um eft­ir ör­ygg­is­ráðstefn­una í München um síðustu helgi. Ýmsir hafa haft á orði að heims­mynd­in sé gjör­breytt vegna hvatn­ing­ar stjórn­ar Banda­ríkj­anna um að Evr­ópa taki á sig aukn­ar byrðar í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. En á þessi afstaða Banda­ríkj­anna að koma á óvart?

Skila­boðin hafa alltaf verið skýr um að Evr­ópa þyrfti að koma frek­ar að upp­bygg­ingu í eig­in ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Í kjöl­far stór­felldr­ar inn­rás­ar Rúss­lands í Úkraínu fyr­ir þrem­ur árum hef­ur Evr­ópu ekki tek­ist að styrkja varn­ir sín­ar í takt við um­fang árás­ar Rúss­lands, að und­an­skild­um ríkj­um á borð við Pól­land og Eystra­salts­rík­in. Evr­ópa hef­ur held­ur ekki náð að styðja við Úkraínu í þeim mæli sem þurfti til að stöðva Rúss­land. Í merki­legu viðtali sem tekið var við Jens Stolten­berg við brott­hvarf hans úr stóli fram­kvæmda­stjóra Atlants­hafs­banda­lags­ins lagði hann ríka áherslu á mik­il­vægi þess að ríki í Evr­ópu myndu styrkja og auka sam­starf í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um ásamt því að staða Atlants­hafs­banda­lags­ins yrði styrkt.

Fyr­ir Ísland er mik­il­vægt að vera með sterka banda­menn beggja vegna Atlantsála. Varn­ar­sam­starfið við Banda­rík­in hef­ur auk­ist und­an­far­in miss­eri. Ísland hef­ur tryggt nauðsyn­lega varn­araðstöðu og -búnað fyr­ir loft­rýmis­eft­ir­lit og aðrar NATO-aðgerðir. Banda­rík­in hafa tekið þátt í loft­rým­is­gæslu og stutt við varn­ir Íslands. Báðar þjóðir hafa einnig aukið upp­lýs­ingaflæði, sam­ráð og sam­eig­in­leg­ar æf­ing­ar, m.a. í neyðaraðstoð og tölvu­ör­yggi. Meg­in­mark­miðið hef­ur verið að efla tví­hliða varn­ar­sam­starf og tryggja ör­yggi á Norður-Atlants­hafi.

Ísland er ekki und­an­skilið í þeim efn­um að veita auk­inn stuðning til ör­ygg­is- og varn­ar­mála. Það er brýnt að við sinn­um okk­ar hlut­verki til þess að sinna og efla varn­ir lands­ins inn­an þeirr­ar getu sem er fyr­ir hendi. Við höf­um átt í far­sælu sam­starfi og sam­vinnu við helstu banda­lagsþjóðir okk­ar og mik­il­vægt er að fram­hald verði á því til að styðja við sjálf­stæði þjóðar­inn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.