Þess er minnst um heim allan að 80 ár eru síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk en hún fól í sér mestu mannfórnir í veraldarsögunni. Víða hefur verið háð stríð eftir seinni heimsstyrjöldina en ekkert í líkindum við hana. Öll vitum við að friður er farsælastur og býr til mesta velmegun í samfélagi manna.
Mikið uppnám hefur ríkt í alþjóðastjórnmálunum eftir öryggisráðstefnuna í München um síðustu helgi. Ýmsir hafa haft á orði að heimsmyndin sé gjörbreytt vegna hvatningar stjórnar Bandaríkjanna um að Evrópa taki á sig auknar byrðar í öryggis- og varnarmálum. En á þessi afstaða Bandaríkjanna að koma á óvart?
Skilaboðin hafa alltaf verið skýr um að Evrópa þyrfti að koma frekar að uppbyggingu í eigin öryggis- og varnarmálum. Í kjölfar stórfelldrar innrásar Rússlands í Úkraínu fyrir þremur árum hefur Evrópu ekki tekist að styrkja varnir sínar í takt við umfang árásar Rússlands, að undanskildum ríkjum á borð við Pólland og Eystrasaltsríkin. Evrópa hefur heldur ekki náð að styðja við Úkraínu í þeim mæli sem þurfti til að stöðva Rússland. Í merkilegu viðtali sem tekið var við Jens Stoltenberg við brotthvarf hans úr stóli framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins lagði hann ríka áherslu á mikilvægi þess að ríki í Evrópu myndu styrkja og auka samstarf í öryggis- og varnarmálum ásamt því að staða Atlantshafsbandalagsins yrði styrkt.
Fyrir Ísland er mikilvægt að vera með sterka bandamenn beggja vegna Atlantsála. Varnarsamstarfið við Bandaríkin hefur aukist undanfarin misseri. Ísland hefur tryggt nauðsynlega varnaraðstöðu og -búnað fyrir loftrýmiseftirlit og aðrar NATO-aðgerðir. Bandaríkin hafa tekið þátt í loftrýmisgæslu og stutt við varnir Íslands. Báðar þjóðir hafa einnig aukið upplýsingaflæði, samráð og sameiginlegar æfingar, m.a. í neyðaraðstoð og tölvuöryggi. Meginmarkmiðið hefur verið að efla tvíhliða varnarsamstarf og tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi.
Ísland er ekki undanskilið í þeim efnum að veita aukinn stuðning til öryggis- og varnarmála. Það er brýnt að við sinnum okkar hlutverki til þess að sinna og efla varnir landsins innan þeirrar getu sem er fyrir hendi. Við höfum átt í farsælu samstarfi og samvinnu við helstu bandalagsþjóðir okkar og mikilvægt er að framhald verði á því til að styðja við sjálfstæði þjóðarinnar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.