Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem snýr að hlutverki Íbúðalánasjóðs á húsnæðismarkaði til framtíðar. Aukin áhersla er lögð á stefnumótun og áætlanagerð og ákvæði um skyldu sveitarfélaga til að aðstoða þá sem erfitt eiga með að afla sér húsnæðis eru skýrð.
Helstu breytingar á lögum um húsnæðismál sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:
- Stefnumótun, greiningum og áætlanagerð er gert hærra undir höfði og ákvæði um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og skyldu þeirra til að aðstoða þá sem eiga erfitt með að afla sér húsnæðis eru skýrð. Íbúðalánasjóði er falið að annast veitingu stofnframlaga og eftirlit með þeim aðilum sem fengið hafa slík framlög en grundvöllur þeirra er góð yfirsýn og áætlanir um húsnæðisþörf.
- Íbúðalánasjóði var með lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir falin umsjá með veitingu stofnframlaga og eftirlit með þeim sem fengið hafa slík framlög. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar þannig að ákvæði um sjóðinn endurspegli þetta hlutverk. Jafnframt eru breytingar á ákvæðum um tekjur Íbúðalánasjóðs sem miðast við að stofnframlög verði fjármögnuð með framlögum úr ríkissjóði í samræmi við fjárlög hverju sinni.
- Heimildir sjóðsins til lánveitinga verða takmarkaðar við sértæk lán á félagslegum forsendum eða vegna markaðsbrests. Lán til einstaklinga verða einskorðuð við þá sem ekki eiga kost á fasteignalánum á ásættanlegum kjörum hjá öðrum lánastofnunum svo sem vegna staðsetningar fasteignarinnar eða af öðrum ástæðum. Núgildandi ákvæði um hámarkslán og hámarksverð fasteigna verða óbreytt og sama máli gegnir um greiðslugetu lántaka og veðhæfi fasteignar. Íbúðalánasjóður mun áfram veita lán til leigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og til sveitarfélaga s.s. vegna húsnæðis fyrir fatlað fólk, aldraðra, öryrkja, námsmenn og vegna hjúkrunarheimila.
- Til að takmarka áhættu sjóðsins og ríkissjóðs og tryggja samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins er kveðið á um skýran bókhaldslegan aðskilnað milli eldra lánasafns og skuldbindinga og nýrra lána og stofnframlaga.
Efni frumvarpsins um breytingu á lögum um húsnæðismál byggist að miklu leyti á tillögum verkefnisstjórnar og samvinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála frá árinu 2014 og tengist einnig yfirlýsingu stjórnvalda um ráðstafanir í tengslum við gerð kjarasaminga á almennum vinnumarkaði vorið 2015. Á þessum grundvelli var áður búið að samþykkja á Alþingi frumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um húsnæðissamvinnufélög, almennar íbúðir, húsnæðisbætur og húsaleigulög.
- Frumvarp til breytinga á lögum um húsnæðismál nr. 44/1998
- Nánari upplýsingar um lög um húsnæðissamvinnufélög, almennar íbúðir, húsnæðisbætur og húsaleigulög
Heimild: www.velferdarraduneyti.is