Categories
Fréttir Greinar

Fullveldissagan og framtíð hennar á íslensku

Deila grein

01/12/2023

Fullveldissagan og framtíð hennar á íslensku

Sér­hverj­um full­veld­is­degi þjóðar­inn­ar ber að fagna. Í dag eru liðin 105 ár frá því að sam­bands­lög­in milli Íslands og Dan­merk­ur tóku gildi og þannig viður­kennt að Ísland væri frjálst og full­valda ríki. Sá áfangi markaði upp­hafið að fram­fara­sögu full­valda þjóðar sem í dag skip­ar sér í röð meðal fremstu ríkja ver­ald­ar á fjöl­mörg­um sviðum. Í amstri hvers­dags­ins vill það stund­um gleym­ast að við get­um ekki tekið grund­vall­ar­hlut­um í sam­fé­lags­gerð okk­ar sem sjálf­sögðum. Frelsi og full­veldi, lýðræði og mann­rétt­indi eru því miður fjar­læg­ir og jafn­vel fram­andi hlut­ir fyr­ir mörg­um jarðarbú­um. Í okk­ar eig­in heims­álfu geis­ar til dæm­is enn ólög­legt inn­rás­ar­stríð þar sem sótt er að þess­um gild­um.

Íslensk­an, þjóðtunga Íslend­inga og op­in­bert mál á Íslandi, er eitt af ein­kenn­um þjóðar okk­ar. Íslensk­una telja senni­lega marg­ir vera hið eðli­leg­asta og sjálf­sagðasta mál sem fylgt hef­ur íbú­um þessa lands í meira en 1.100 ár. Þannig var tungu­málið til dæm­is samofið bar­áttu þjóðar­inn­ar fyr­ir full­veldi sínu þar sem hún þjónaði sem okk­ar helsta vopn, en hún var í senn álit­in sam­ein­ing­ar­tákn og rétt­læt­ing ís­lensku þjóðar­inn­ar fyr­ir sér­stöðu sinni; sér­stök þjóðtunga, sér­stök menn­ing.

Það er eng­um blöðum um það að fletta í mín­um huga að ís­lensk­an stend­ur á ákveðnum kross­göt­um. Hraðar og um­fangs­mikl­ar þjóðfé­lags­breyt­ing­ar und­an­far­inna ára hafa fram­kallað áskor­an­ir af áður óþekkt­um stærðargráðum fyr­ir tungu­málið okk­ar. Örar tækni­breyt­ing­ar hafa gjör­bylt því mál­um­hverfi sem börn al­ast upp í og ensk­an er nú alltumlykj­andi hvert sem litið er.

Við sem þjóðfé­lag get­um ekki horft á tungu­málið okk­ar þynn­ast út og drabbast niður. Í vik­unni kynntu stjórn­völd 19 aðgerðir í þágu ís­lensk­unn­ar. Aðgerðirn­ar snerta flest svið sam­fé­lags­ins en í þeim er meðal ann­ars lögð áhersla á mál­efni ís­lensku­kennslu fyr­ir full­orðna inn­flytj­end­ur, aukið sam­starf við at­vinnu­lífið og þriðja geir­ann. Sum­ar aðgerðanna fela í sér um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar til hins betra en ís­lensk­an er úti um allt í sam­fé­lagi okk­ar og því tek­ur það sinn tíma að stilla sam­an strengi í jafn fjöl­breyttu verk­efni og raun ber vitni.

Við get­um öll gert okk­ar til þess að efla og þróa tungu­málið okk­ar til framtíðar. Og það þurfa all­ir að gera – það er verk­efni sam­fé­lags­ins að tryggja framtíð ís­lensk­unn­ar og þar er ekki í boði að skila auðu. Ég finn skiln­ing á þessu mik­il­væga viðfangs­efni vaxa með viku hverri og við ætl­um að tryggja að full­veld­is­saga þjóðar­inn­ar verði áfram skrifuð á ís­lensku um ókomna framtíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2023.