Góður námsárangur er liður í því að tryggja farsæld barna og farsæld einstaklinga er mikilvæg undirstaða árangurs í námi. Þess vegna verður metnaður alls starfsfólks í skólakerfinu að snúast um hvort tveggja; gæði náms og farsæld.
Stefna og forysta stjórnvalda
Sveitarfélögin bera ábyrgð á skólastarfi í leik- og grunnskólum en ríkið í framhaldsskólum og háskólum, engu að síður verður ríkisvaldið að axla ábyrgð á forystu í menntamálum í samvinnu við hagaðila. Í þeim efnum hafa mikilvæg skref verið stigin á síðustu árum og verið er að stíga enn fleiri mikilvæg skref. Þessi vinna hefur í sumar vakið mikilvæga þjóðfélagsumræðu um skólamál. Umræðan hefur til þessa einkum snúist um námsmat en mikilvægt er að umræðan haldi áfram og að hún víkki út til fleiri viðfangsefna.
Umbótaskref í samræmi við stefnu
Menntastefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi árið 2021, og er hún bæði byggð á alþjóðlegu samstarfi og víðtæku samráði innanlands. Nú er unnið að innleiðingu stefnunnar í samræmi við fyrstu aðgerðaáætlunina. Ein af aðgerðunum í innleiðingunni er uppbygging heildstæðrar skólaþjónustu um land allt sem styður við nám og farsæld barna og ungmenna.
Markmiðið er að stuðla að öflugri skólaþróun með fjölbreyttum verkefnum sem kennarar, skólastjórnendur, annað fagfólk og nemendur hafa frumkvæði að. Með öðrum orðum: það á að byggja upp öfluga stoðþjónustu til að styðja við starfið í skólunum en við megum aldrei missa sjónar á því að grunnþjónustan fer fram í skólunum og þar þarf barnið að ná árangri.
Á síðasta ári samþykkti Alþingi ný lög um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og tók stofnunin til starfa 1. apríl sl. Miðstöðin er þjónustustofnun með skýrt stuðnings- og samræmingarhlutverk vegna skólastarfs á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og hún er í lykilhlutverki við innleiðingu menntastefnu.
Árið 2021 voru líka samþykkt lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, lögin tóku gildi árið 2022 og áætlað er að ljúka innleiðingu þeirra á þremur til fimm árum.
Þannig helst innleiðing menntastefnu og laga um farsæld barna í hendur undir forystu mennta- og barnamálaráðuneytis, enda farsæld og árangur í námi órjúfanlega tengd eins og áður sagði.
Næstu skref
Kynnt hefur verið að í vetur fái Alþingi til umfjöllunar frumvörp til laga um námsgögn, breytingar á ákvæðum laga um námsmat í grunnskólum og frumvarp um inngildandi menntun þar sem stefna um skólaþjónustu er útfærð. Einnig er áætlað að leggja fram stefnu og framkvæmdaáætlun um farsæld barna, og mun sú stefna marka ákveðin þáttaskil í innleiðingu farsældarlaganna.
Það er því alveg ljóst að það er margt sem við þurfum að ræða auk námsmatsins, s.s. náms- og kennslugögn fyrir allt menntakerfið, ytra og innra mat á skólastarfi, áframhaldandi fjölgun kennaranema og inntak náms fagfólks sem vinnur með börnum og ungmennum, nemendalýðræði, íslenskuna og menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sem og starfsþróun skólafólks.
Það er sannarlega verið að bæta heildarsýn í menntamálum og stíga mikilvæg og nauðsynleg framfara- og umbótaskref.
Við þurfum að halda áfram að ræða um yfirstandandi breytingar, markmið, gæði og árangur í menntamálum.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og situr í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2024.