Categories
Fréttir

Gagnlegur fundur með Seðlabanka

Deila grein

31/08/2016

Gagnlegur fundur með Seðlabanka

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Í gær fór fram opinn fundur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd með fulltrúum peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands til þess að ræða peningamálin, síðustu skýrslu og vaxtaákvarðanir, en nú síðast var sú ánægjulega ákvörðun tekin að lækka stýrivexti.
Þessi skýrslugjöf og samræða sem á sér stað millum þingsins og Seðlabankans um þessi málefni er samkvæmt lögum og hefur verið afar gagnleg og nauðsynleg. Það er nauðsynlegt að ræða milliliðalaust forsendur slíkra ákvarðana og þá stöðu í þjóðarbúinu sem grundvallar slíkar ákvarðanir og ekki er síður mikilvægt að gefa peningastefnunefnd færi á að bregðast við þeirri gagnrýni sem viðhöfð er á peningastefnuna, aðallega hátt vaxtastig, og svara spurningum um að beita m.a. öðrum tækjum af meiri krafti.
Fundurinn í gær var engin undantekning, hann var afar gagnlegur. Ég ætla að draga fram það sem mér fannst markverðast á þessum fundi. Í fyrsta lagi: Jákvæð staða þjóðarbúsins og sá árangur sem hefur náðst í efnahagsmálum þar sem flestallir hagvísar eru jákvæðir. Í öðru lagi er erfitt að hrekja það að aðhaldssöm peningastefna hefur náð raunverulegum árangri. Það er þriggja ára samfellt stöðugleikatímabil til vitnis um. Eftir stendur sú spurning hvort sama árangri hefði verið hægt að ná með lægra vaxtastigi og með teknu tilliti til hagstæðra ytri skilyrða. Í þriðja lagi nefni ég styrkingu krónunnar og stöðu útflutningsatvinnugreina. Þar var sérstaklega rætt um ferðaþjónustu sem hefur vaxið hratt með tilheyrandi fjárfestingum. Í fjórða lagi er það jákvæð þróun í lagaumgjörð ríkisfjármála sem með auknum aga og festu ætti til lengdar að geta stutt betur við peningastefnu en hingað til. Í síðasta lagi nefni ég þær miklu áskoranir fyrir peningastefnuna sem sannarlega felast í frekari losun fjármagnshafta.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 30. ágúst 2016.