Categories
Fréttir

„Gefum íslenskunni séns“

Deila grein

06/03/2024

„Gefum íslenskunni séns“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins aðlögun innflytjenda inn í samfélagið og hvernig við getum sem best boðið fólki að starfa og lifa í okkar samfélagi. Hafandi í huga að merkilegasti menningararfurinn sé tungumálið okkar íslenska þá er það á okkar ábyrgð að þjálfa íslenskuna og ekki skipta sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum við innflytendur.

„Það er því á ábyrgð samfélagsins og okkar að hjálpa til við aðlögun innflytjenda inn í samfélagið; innflytjenda sem við höfum verið svo heppin að fá hingað til landsins og má finna um allt land í öllum byggðarkjörnum; fólk sem er tilbúið að leggja okkur lið við að viðhalda góðu samfélagi og viðhalda hagkerfinu til framtíðarkynslóða. Það er staðreynd að stór hluti, eða 87%, innflytjenda er á vinnumarkaði hér á landi og er það vel,“ sagði Halla Signý.

„Háskólasetrið á Vestfjörðum hýsir verkefnið „Gefum íslenskunni séns“ sem er m.a. stofnað af Fræðslumiðstöð Vestfjarða með Ólafi Guðsteini Kristjánssyni í fararbroddi. Síðan verkefnið var stofnað hafa sveitarfélög og fleiri aðilar komið að því. Þetta sprettur upp af átaki sem var á Ísafirði með það að markmiði að auka vitund fólks gagnvart íslensku og tileinkun málsins.“

„Þegar við tökum á móti ferðamönnum leggjum við áherslu á að sýna menningararf okkar og áhugaverða staði um allt land, söguna og náttúruna. Merkilegasti menningararfurinn er þó tungumálið okkar íslenska. Við þurfum að lyfta því upp. Það hefur þróast líkt og náttúran í okkar fallega landi en fyrir okkur er tungumálið festan í þjóðinni og samnefnari.“

„Við verðum því að vera opin fyrir því hvernig við getum boðið þeim sem flytja hingað og dvelja hér um lengri eða skemmri tíma að starfa og lifa í okkar samfélagi. Það er á okkar ábyrgð að þjálfa íslenskuna og ekki skipta sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum og leyfa fólki — það eru allir af vilja gerðir — að byggja undir þá kunnáttu sem það býr yfir. Að sjálfsögðu verðum við að bera virðingu fyrir því að okkar ylhýra er ekki auðlært og setjast ekki í dómarasæti heldur vera fyrirmynd,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Samfélag okkar er sem betur fer ekki einsleitt heldur fjölbreytt. Það er því á ábyrgð samfélagsins og okkar að hjálpa til við aðlögun innflytjenda inn í samfélagið; innflytjenda sem við höfum verið svo heppin að fá hingað til landsins og má finna um allt land í öllum byggðarkjörnum; fólk sem er tilbúið að leggja okkur lið við að viðhalda góðu samfélagi og viðhalda hagkerfinu til framtíðarkynslóða. Það er staðreynd að stór hluti, eða 87%, innflytjenda er á vinnumarkaði hér á landi og er það vel.

Háskólasetrið á Vestfjörðum hýsir verkefnið Gefum íslenskunni séns sem er m.a. stofnað af Fræðslumiðstöð Vestfjarða með Ólafi Guðsteini Kristjánssyni í fararbroddi. Síðan verkefnið var stofnað hafa sveitarfélög og fleiri aðilar komið að því. Þetta sprettur upp af átaki sem var á Ísafirði með það að markmiði að auka vitund fólks gagnvart íslensku og tileinkun málsins. Það hafa verið haldin námskeið og málþing sem hafa vakið athygli og nú er verkefnið að færast á fleiri svæði. Þátttakendur eru íbúar á svæðinu, bæði íslenskir að uppruna og innflytjendur. Það er mikilvægt að allir taki þátt.

Þegar við tökum á móti ferðamönnum leggjum við áherslu á að sýna menningararf okkar og áhugaverða staði um allt land, söguna og náttúruna. Merkilegasti menningararfurinn er þó tungumálið okkar íslenska. Við þurfum að lyfta því upp. Það hefur þróast líkt og náttúran í okkar fallega landi en fyrir okkur er tungumálið festan í þjóðinni og samnefnari. Við verðum því að vera opin fyrir því hvernig við getum boðið þeim sem flytja hingað og dvelja hér um lengri eða skemmri tíma að starfa og lifa í okkar samfélagi. Það er á okkar ábyrgð að þjálfa íslenskuna og ekki skipta sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum og leyfa fólki — það eru allir af vilja gerðir — að byggja undir þá kunnáttu sem það býr yfir. Að sjálfsögðu verðum við að bera virðingu fyrir því að okkar ylhýra er ekki auðlært og setjast ekki í dómarasæti heldur vera fyrirmynd.“